Í sumar hófust framkvæmdir við Réttarholtsskóla, en komið var að uppfærslu á byggingunum sem voru byggðar í áföngum frá 1956 til 1970. Umfang verksins var aukið á framkvæmdatímabilinu og verður því ekki lokið fyrir upphaf skólaárs. Annað húsnæði skólans verður nýtt til kennslu tímabundið.
Í sumar hófust framkvæmdir við endurgerð C-álmu Réttarholtsskóla þar sem sérstaklega var horft til ákveðinna byggingarhluta sem ekki uppfylla nútímakröfur um öryggi og tæknimál, einangrun í útveggjum, þakvirki og fleira. Í C-álmu eru fjórar kennslustofur og verða þær sem nýjar og fullbúnar með nýjustu kennslutækni við lok framkvæmda. Í framhaldi verður farið í uppfærslu á B-álmu og A-álmu.
Verkfræðistofan Efla var fengin til að gera ástandsskoðun á álmunni sem er syðsti hluti skólans og hafa eftirlit með framkvæmdum. Skólabyggingarnar við Réttarholtsskóla hafa fengið gott viðhald í gegnum árin en við ástandsskoðun komu í ljós byggingarefni sem eru menguð af gró sem við ákveðnar aðstæður gætu orðið að skaðlegri myglu. Í kjölfar úttektarinnar var ákveðið að auka umfang verksins, meðal annars að skipta um burðarvirki á þaki ásamt því að setja nýja klæðningu.
Ljóst er að framkvæmdum verður ekki lokið við skólasetningu í næstu viku og hefur verið unnið með skólastjórnendum að því að koma starfsemi skólans tímabundið fyrir í öðrum skólabyggingum til að lágmarka rask. Búist er við að framkvæmdum ljúki í október.
Frekari upplýsingar um endurgerð C-álmu Réttarholtsskóla má finna á framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar.