Frá og með næstu áramótum munu frístundamiðstöðvarnar Ársel og Gufunesbær starfa undir einni yfirstjórn. Þetta var samþykkt í skóla- og frístundaráði í dag.
Samþykkt ráðsins er liður í innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn sem felur í sér að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfinu og færa hana út í nærumhverfi þeirra. Þá felur verkefnið í sér að þétta samstarf skóla við velferðarþjónustu og skipta borginni upp í fjögur þjónustuhverfi í stað fimm.
Í greinargerð segir m.a. að fagleg starf frístundamiðstöðvanna tveggja sé afar gott og að mikil ánægja ríki hjá þjónustuþegum og starfsfólki með starfið. Ekkert bendi til þess að þjónustan verði lakari með sameiningu yfirstjórnar. Faglegur ávinningur geti falist í heildstæðari stefnumótun og auknu samstarfi starfshópa sem vinna sambærileg störf. Einnig verði hagræðing í launakostnaði og rekstri sem nemur um 61 milljón króna á ársgrundvelli, fjármagni sem nýtt verður í innleiðingu verkefnisins Betri borg fyrir börn.