Friðarsetur fjallar um traust í alþjóðasamstarfi

Stjórnsýsla

""

Árleg friðarráðstefna Höfða Friðarseturs verður haldin í Veröld, húsi Vigdísar föstudaginn 8. október nk. Ráðstefnan leggur í ár áherslu á mikilvægi trausts fyrir sjálfbæran frið og friðarmenningu.

Árangur alþjóðlegra stofnana byggir á að ríki og almenningur treysti þeim og líti á ógnir samtímans sem alþjóðlegar ógnir sem leysa þurfi í sameiningu.  Á ráðstefnunni er spurt hvort traust til alþjóðasamstarfs hafi dvínað og ef svo er, hvernig getum við þá tekist á við stærstu áskoranir og ógnir samtímans? Hvernig þróum við alþjóðlega borgaravitund með almenningi og virkjum almenna borgara til aðgerða? Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að árið 2021 skuli vera alþjóðlegt ár trausts og friðar og þykir Það við hæfi á tímum heimsfaraldurs, þar sem reynt hefur verulega á traust til alþjóðasamstarfs.

Forseti Íslands, hr. Guðni Th Jóhannesson, ávarpar ráðstefnuna en borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, býður alla velkomna. Í viðbót við stóran hóp innlendra þátttakenda má vekja athygli á tveimur fyrrverandi nemendum Jafnréttisskólans, Ofoq Roshan og Zeba Sultani, sem taka munu þátt í málstofu um ástandið í Afganistan.

Heimsfaraldurinn hamlar för fyrirlesara til landsins og þau taka því þátt í ráðstefnunni um fjarfundarbúnað. Meðal fyrirlesara í ár eru;

  • Helen Clark, fyrrum forsætisráðherra Nýja-Sjálands en hún er formaður nefndar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem á að meta viðbúnað og viðbrögð við heimsfaraldrinum um heim allan.
  • Fawzia Koofi, fyrrverandi þingkona frá Afghanistan og baráttukona fyrir réttindum kvenna en Fawzia hefur nú flúið heimaland sitt.
  • Sanam Naraghi-Anderlini, forstöðukona Centre for Women, Peace and Security við London School of Economics og stjórnarformaður International Civil Society Action Network (ICAN) en Sanam hefur lagt mikla áherslu á málefni kvenna í friðarumleitunum.
  • Juan Pablo Villalobos, höfundur verðlaunabókarinnar Veislunnar í greninu.
  • Hindou Oumarou Ibrahim, landfræðingur og sérfræðingur í loftslagsmálum og réttindum frumbyggja frá Chad.

Ráðstefnan er haldin samstarfi við utanríkisráðuneytið, Stofnun Sæmundar fróða og Jafnréttisskólann (GRÓ GEST).

Nánar um dagskrá ráðstefnunnar