Friðarhús fær aðgengisviðurkenningu fyrir hjólastólalyftu

Mannréttindi

""

Samtök hernaðarandstæðinga og Friðarhús SHA ehf. fá aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar í ár fyrir að sýna frumkvæði í aðgengismálum með uppsetningu á hjólastólalyftu í Friðarhúsinu.

Dómnefndin, sem var aðgengis- og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðs fólks, var einróma í þeirri skoðun að þetta frumkvæði samtakanna væri til fyrirmyndar. Að tryggja aðgengi allra af hugsjónaástæðum en ekki vegna þess að um bráðavanda væri að ræða, sýndi afar gott fordæmi fyrir fjölmarga:  félagasamtök, verslanir og þjónustuaðila.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti viðurkenninguna, sem nú er veitt í þriðja sinn. Hann sagði mikilvægt að hrósa fyrir það sem vel væri gert í aðgengismálum um leið og hann hvatti aðra til að huga betur að aðgengi. Gott aðgengi í víðum skilningi þess hugtaks er mikilvægt mannréttindamál og undirstaða þess að fólk með fjölbreyttar aðgengisþarfir geti tekið þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.

Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga og Elvar Ástráðsson stjórnarformaður í Friðarhúsi ehf, sögðu að þeir hefðu alltaf viljað að allir væru velkomnir svo það var drifið í því að setja upp lyftu og hún kostuð að mestu með söfnunarfé. „Okkur fannst þetta svo sjálfsagt. Við vorum náttúrulega búnir að klappa sjálfum okkur á bakinu en það er mjög notalegt að einhver hafi tekið eftir þessu,“ sagði Elvar.

Aðgengisverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, hópum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa staðið vörð um gott aðgengi svo eftir því er tekið. Viðurkenningunni er ætlað að gera aðgengismálum hærra undir höfði og varpa ljósi á það sem vel er gert í málaflokknum.

Þess má að lokum geta að  félagasamtök, verslanir og þjónustuaðilar i miðborginni geta núna fengið aðstoð við að bæta aðgengi  hjá sér með þátttöku í verkefninu Römpum upp Reykjavík.