Frá og með næsta hausti verða tíðavörur í boði fyrir grunnskólanema í borginni án endurgjalds. Tillaga Sögu Maríu Sæþórsdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða þess efnis var samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs 23. mars.
Saga María lagði fram tillögu sína á fundi ungmennaráðs Reykjavíkur og borgarstjórnar vorið 2020 og var skóla- og frístundasviði falið að veita auknu fjármagni til að auðvelda aðgengi barna og ungmenna að fríum tíðavörum frá og með hausti 2020.
Í greinargerð með tillögunni sem nú náði fram að ganga segir m.a. að ýmsir hópar hafi kallað eftir því að tíðavörur verði taldar til sama flokks og aðrar hreinlætisvörur, s.s. salernispappír og handsápa á almennum salernum, þótt það hafi enn ekki verið samþykkt með lögum.
Kynþroskaskeiðið geti verið viðkvæmur og flókinn tími fyrir börn og ungmenni á margan hátt. Sum börn séu afar ung þegar kynþroskatímabilið hefjist og það geti jafnvel munað 5-6 árum á milli einstaklinga hvenær ferlið fari af stað. Þegar blæðingar hefjist sé algengt að þær séu óreglulegar og mismiklar fyrstu árin. Það geti aukið verulega á kvíða og streitu ungra einstaklinga að óttast að byrja á blæðingum í skólanum eða að þurfa að fara á salernið og hafa ekki tíðavörur meðferðis.
Haustið 2018 hófst tilraunaverkefni um aukna kynfræðslu í tveimur grunnskólum í Reykjavík, Foldaskóla og Seljaskóla. Samhliða aukinni kynfræðslu var boðið upp á fríar tíðavörur í skólunum sem og í þeim félagsmiðstöðvum sem nemendur þeirra sækja. Nemendur fengu fræðslu um tíðavörur og var vörunum komið fyrir á salernum skólanna og félagsmiðstöðvanna. Bæði hafa bindi og tappar verið í boði. Reynslan af verkefninu hefur verið afar góð og þykir þeim nemendum sem hafa blæðingar öryggi í því að geta gengið að tíðavörunum vísum ef á þarf að halda.
Virðisaukaskattur af tíðavörum var lækkaður úr 24% í 11% 1. september 2019 og hefur því almennur kostnaður lækkað. Ef tilraunaverkefnið er haft til hliðsjónar er áætlaður heildarkostnaður fyrir alla grunnskóla og félagsmiðstöðvar borgarinnar á bilinu 650.000 - 750.000 krónur á ári.