50 hjóla- og gönguteljarar mæla fjölda gangandi og hjólandi víðs vegar um höfuðborgasvæðið en þeir sýna greinilega aukningu vistvænna samgöngumáta á milli ára. Tíu af teljurunum eru nýir og hægt er að skoða niðurstöður í Borgarvefsjá. Það má nefna að einn þeirra er við Esjuna og annar við Sigtún í Krýsuvík.
Hægt er að kalla eftir niðurstöðum úr teljurum í borgarvefsjá í einn sólarhring eða einn mánuð aftur í tímann. Skoða má á hvaða tíma dags flestir hjóla. Að meðaltali mælast 22.860 gangandi og hjólandi á þessum 50 teljurum. Á virkum dögum 22.565 og 23.598 á helgardögum.
Einn af nýju teljurunum er vð Bústaðaveg. Hann greinir flæði umferðar milli Marklands og Seljalands, þar fóru 72 gangandi og 99 hjólandi framhjá fimmtudaginn 8. júlí .
Janúar 2020 og 2021 ólíkir
Lesa má úr áhrifum veðurfars á fjölda þeirra sem hjóla. Áhugavert er að skoða gögnin og bera saman ár í því samhengi. Nefna má að í janúar 2020 fóru 5.300 gangandi fram hjá teljaranum en 15 þúsund í janúar 2021. Í þeim sama mánuði hjóluðu 5.900 árið 2020 en 8.900 árið 2021. Hver er skýringin? Það er staðreynd að í janúar 2020 var afleitt veður á Höfuðborgarsvæðinu.
Hjólateljarar gefa meðal annars mikilvægar upplýsingar um árstíðaskipti í hjólreiðum. Hæsta tíðni hjólandi og gangandi er á vorin og fram á haust en minnkar verulegar yfir vetrartímann. Þessir teljarar eru ágætlega snjallir því þeir greina á milli hjólandi og gangandi og greina áttir.
Talið við Esjuna og á Þvottalaugaveg
Það er teljari við Esjuna. 19. júní á þessu ári mældust 1000 manns á leið upp á fjallið en að meðaltali fara 411 á leið upp á Þverfellshorn.
Teljari er staðsettur á Þvottalaugavegi í Laugardalinn en þar labba, skokka eða hjóla að meðaltali 1.533 manns. Fyrsta júlí fóru 1.700 manns um Þvottalaugaveg. Annar teljari er við Hofteig, fyrir framan göngubrú yfir Kringlumýrarbraut en þar fara um 600 manns daglega, gangandi eða hjólandi. Það sýni gildi þessarar brúar.
Samgönguhjólreiðar vaxandi
Hjólreiðar og aðrir vistvænir ferðamátar hafa góð áhrif á umhverfi, lýðheilsu og lífsgæði og stuðla að betri borg. Þær draga einnig úr þörf á dýrum umferðarmannvirkjum undir bifreiðar. Eftir teljurunum að dæma má segja að fólk noti reiðhjól meira en áður var gert. Fjölmargir hjóla og ganga greinilega til og frá vinnu.
Nýir teljarar settir upp á neðangreindum stöðum.
Allir geta sótt gögn um gangandi og hjólandi í Borgarvefsjá og gert sinn eigin samanburð.
- Breiðholtsbraut v/ Suðurfell
- Bústaðavegur v/ Markland
- Bústaðavegur v/ Veðurstofu
- Gullinbrú v/ göngubrú
- Hofteigur
- HR
- Hringbraut
- Rauðagerði
- Sæbraut
- Þvottalaugavegur