Fimm tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna komu í hlut reykvískra kennara og skóla- og frístundastarfs í borginni en tilkynnt var um þær á alþjóðadegi kennara í dag.
Frístundamiðstöðin Tjörnin, er ein af þremur menntastofnunum sem er tilefnd í flokki framúrskarandi skólastarfs og menntaumbóta fyrir framsækið og fjölbreytt þróunarstarf, frumkvæði og nýbreytni.
Í flokki framúrskarandi kennara er Anna Gréta Guðmundsdóttir, kennari við leikskólann Sæborg, tilnefnd fyrir skapandi og lýðræðislegt leikskólastarf og Hanna Rún Eiríksdóttir, kennari við Klettaskóla, tilnefnd fyrir framúrskarandi kennslu nemenda með fötlun, meðal annars fyrir að þróa nýjar leiðir til tjáskipta.
Og í flokki framúrskarandi þróunarverkefna eru tilnefnd tvö verkefni í Reykjavík; annars vegar Austur Vestur: sköpunarsmiðjurnar sem er þróunarverkefni í Ingunnarskóla, Selásskóla og Vesturbæjarskóla og miðar að því að efla skapandi hugsun, frumkvæði og nýsköpun, og hins vegar leiðsagnarnámið sem Nanna Kr. Christiansen hefur leitt fyrir hönd skóla- og frístundasviðs, en það er þróunarverkefni um eflingu námsmenningar sem stuðlar að aukinni ábyrgð nemenda á eigin námi.
Markmið Íslensku menntaverðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og ungmennum.
Að Íslensku menntaverðlaununum standa embætti forseta Íslands, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags um menntarannsóknir, Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samtök áhugafólks um skólaþróun og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
Verðlaunin sjálf verða afhent 10. nóvember nk.
Til hamingju öll með verðlaunatilnefningar fyrir framúrskarandi starf!
Sjá nánari upplýsingar á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun.