Ertu með glimrandi hugmynd að forvörnum? 

Velferð

""

Opnað hefur verið fyrir umsóknir úr Forvarnasjóði Reykjavíkur en alls eru 10,7 milljónir króna til úthlutunar. Hægt er að sækja um styrki til fjölbreyttra verkefna í einstökum hverfum eða almennt í borginni. 

Styrkirnir gefa einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til að vinna að forvörnum í borginni. Samkvæmt nýjum úthlutunarreglum geta stofnanir Reykjavíkurborgar eða starfsmenn þeirra sótt um styrki í sjóðinn en einungis þó í samstarfi við aðra aðila utan Reykjavíkurborgar.

Hlutverk Forvarnasjóðs er að stuðla að forvörnum og efla félagsauð í hverfum Reykjavíkur. Styrkir úr sjóðnum verða veittir til verkefna sem styðja: 

  • Forvarnir í þágu barna og unglinga
  • Eflingu félagsauðs í hverfum borgarinnar
  • Bætta lýðheilsu
  • Markvisst samstarf íbúa, félagasamtaka, og fyrirtækja í þágu forvarna og félagsauðs
  • Önnur verkefni sem mæta þeim markmiðum sem borgarstjórn setur hverju sinni

Það eru íbúaráð sem veita styrki til verkefna í hverfum en velferðarráð til almennra forvarnarverkefna í borginni. Opnað var fyrir umsóknir 31. ágúst og er umsóknarfrestur til miðnættis 30. september 2021. 

Lestu nánar um Forvarnasjóð Reykjavíkurborgar og umsóknarferlið hér.