„Ég er eitt minnsta teymi borgarinnar“

Velferð

""

„Ég tek lífinu létt – ég verð að gera það. Ég er með verki allan sólarhringinn og nota hugann til þess að vinna mig frá því, sem tekst svona yfirleitt hjá mér. Þann 20. apríl árið 1980, á afmælisdegi Hitlers, lenti ég nefnilega í slysi. Ég var uppi á þaki að smíða þegar ég hrasaði og féll niður tíu metra. Ég fór mjög illa og var meðvitundarlaus í hálfan mánuð. Það vantar eitthvað af innyflunum í mig, hálft bris og miltað, en þeir skildu hjartað eftir að ég held. Höfuðkúpan og andlitið brotnuðu illa svo ég fékk nýtt andlit. Ég pantaði Robert Redford en þetta var það sem ég fékk.

 

Þetta var sjokk en ég brotnaði aldrei niður. Ég var íþróttamaður – ég var meira að segja með sixpack. Mér var sagt að ef ég næði að ganga aftur myndi ég samt aldrei smíða framar. Þá hljóp þrjóskan í mig og ég tók meistaraskóla húsasmiða að hluta til utanskóla á spítalanum og stofnaði mitt eigið fyrirtæki um leið og ég komst á lappir. 

Næstu fjögur árin eftir slysið var ég meira og minna inni á spítala í mismunandi aðgerðum. Þegar ég komst loksins á Grensás héldu allir að ég væri að deyja, því fráhvörfin af morfíninu sem ég hafði verið á lengi voru svo svakaleg. Þegar ég útskrifaðist af Grensás fékk ég heilt apótek með mér heim og mér leist ekki á það, svo ég henti öllum morfínlyfjum. En í staðinn byrjaði ég að drekka, fá mér aðeins í glas eftir vinnu, sem hjálpaði mér að sofna og minnka verki. Svo ágerðist drykkjan og ég innbyrti mikið magn af vodka á hverjum degi eftir vinnu. 

Ég fúnkeraði vel að eigin mati, vaknaði klukkan sex á morgnana til að byrja að vinna en missti svo tökin og lífið fór að verða óbærilegt, þá fóru nú að renna á vininn tvær grímur. Fljótlega eftir þetta skellti ég mér inn á Vog, það var 1991, þar var ég í tíu daga og varð edrú. Tveimur árum síðar fór ég að vinna hjá SÁÁ og hef síðan unnið á ýmsum meðferðarstofnunum.

Lengi vann ég í vímuefnamálunum meðfram smíðunum en það kom að því að ég gat ekki lengur unnið sem smiður. Þá var ég farinn að þurfa að hringja í konuna mína eftir vinnudaginn og biðja hana að koma að ná í mig, því ég komst ekki út úr bílnum. Árið 2013 skellti ég mér félagsráðgjöf, 58 ára gamall og vann á Gistiskýlinu allt námið. Hingað á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis kom ég í seinna starfsnámið og hafa stelpurnar hér ekki losnað við mig síðan, er smávegis að kenna í Háskólanum líka.

Mín reynsla í sambandi við áfengis- og vímuefnin kemur sér vel í því verkefni sem ég er að koma á fót núna að frumkvæði Sigrúnar Ingvarsdóttur. Ég er eitt minnsta teymi borgarinnar og á að sjá um fíkniráðgjöf fyrir eldri borgara. Ég vinn að því að kortleggja áfengis- og vímuefnamál eldri borgara og skipuleggja fræðslu. Þetta er falið vandamál hér í borginni og ótrúlegur fjöldi sem á við vímuefnavanda að stríða. Nú er ´68-kynslóðin að koma inn í hóp eldri borgara. Í þeim hópi er fólk sem reykir kannabis og er í annars konar neyslu en áfengisneyslu, svo sem lyfjaneyslu. Ýmsar áskoranir munu fylgja þessu á næstu árum. 

Ég hef yndi af því að rækta og hlúa að, það á bæði við um plöntur og fólk. Ég bý í Hveragerði þar sem ég á mitt eigið gróðurhús þar rækta ég allar þær trjátegundir sem ég mögulega kemst í en líka sumarblóm og inniblóm. Ég er einn af þessum skrýtnu sem talar við blómin sín. Að vera óvirkur alkóhólisti sjálfur hjálpar mér í mínu starfi og ég á auðvelt með að skilja fólk því ég þekki kvölina á bakvið kvíðann og þunglyndið og að fá ekki skammtinn sinn. Það gefur mér mikið að geta hjálpað. Mér finnst svo gaman að geta stuðlað að því að einhverjum líði betur.“ 

Svanur Heiðar Hauksson starfar í Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Hann er smiður að mennt en vatt kvæði sínu í kross 58 ára gamall og fór að læra félagsráðgjöf. Hann starfar nú sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi fyrir eldra fólk í Reykjavík.