Þrír einstaklingar sem komu til Íslands í leit að nýju lífi og hafa reynslu af því að fá þjónustu í Reykjavík tóku til máls á Velferðarkaffi – morgunfundi velferðarráðs í morgun. Fundurinn var í opnu streymi á Facebook-síðu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og fylgdist fjöldi fólks með honum.
Fólki sem kemur til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd og sest að í Reykjavík hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Það kallar á aukið fjármagn í málaflokkinn og að þjónustan aukist og þróist í takti við fjölgunina. Á árinu 2020 voru 220 nýir einstaklingar teknir inn í þjónustu Teymis umsækjenda um alþjóðlega vernd á velferðarsviði. Alls veitti teymið um 433 einstaklingum, fullorðnum og börnum þjónustu það ár. Fyrirséð er að þjónusta velferðarsviðs aukist enn frekar á þessu sviði, þar sem borgarráð samþykkti nýlega að fela sviðinu undirbúning að viðræðum við félagsmálaráðuneytið um þjónustu við allt að 500 einstaklinga sem fengið hafa stöðu flóttamanns.
Mannleg samskipti það mikilvægasta
Ein þeirra sem tóku til máls var Mahe Diouf frá Senegal. Dætur hennar tvær, Marta og María, sem eru á fjórða og sjöunda ári, og báðar fæddar hér á landi voru í hópi þeirra sem allsherjar- og menntamálanefnd lagði til að fengi ríkisborgararétt í gær. Það gerir að verkum að Mahe og eiginmaður hennar fá einnig dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þetta var því fyrsti dagurinn, frá því að Mahe kom til Íslands fyrir sjö árum, sem hún vaknaði að morgni með þá vissu að hún ætti sér öruggan samastað í heiminum. Hún þakkaði fyrir þann stuðning sem fjölskyldan hefur fengið á Íslandi: „Mikilvægasta aðstoðin sem við höfum fengið snýst ekki um hluti og ekki um húsögn. Það er mannlega aðstoðin sem er mikilvægust,“ sagði hún. Fólk í svipaðri stöðu og hún sé undir miklu álagi, glími jafnvel við þunglyndi og þurfi fyrst og fremst á mannlegum stuðningi að halda. Hún var þakklát þeim stuðningi sem hún hefur fengið frá Teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd. „Það hafa komið tímabil þar sem mig hefur alls ekki langað að hitta annað fólk. En þau hringdu alltaf í mig og ég gat alltaf leitað aftur til þeirra. Ég gat treyst þeim fyrir persónulegu lífi mínu og þau héldu trúnað við mig. Í dag lít ég eiginlega frekar á þau sem systur mínar og bræður heldur en ráðgjafa.“
Að lokum sagðist hún gera sér grein fyrir því að það sé flókið verkefni að taka á móti þeim fjölbreytta hópi sem flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd er en hún var með ráð við því: „Ef mennskan er í fyrsta sæti verður allt auðveldara.“
Fann samastað á Íslandi
Essam Shihab er frá Jemen en hann kom til Íslands í ágúst árið 2019 og fékk þjónustu Teymis umsækjenda um alþjóðlega vernd þar til hann fékk stöðu flóttamanns ári síðar. „Á meðan ég fékk þjónustu teymisins og bjó í húsnæði á þeirra vegum fékk ég íslenskukennslu sem hjálpaði mér mjög mikið. Ég fékk líka kort í líkamsrækt og sund, sem var ókeypis fyrir okkur. Þetta var mjög góð reynsla og það hafði ég ekki upplifað áður. Það er erfitt að vera umsækjandi um alþjóðlega vernd, ferðast landa á milli og finna að þú ert ekki velkominn. Það er erfitt, sársaukafullt og ógnvekjandi. Þegar ég kom til Íslands fann ég minn samastað. Hann hafði ég ekki fundið annars staðar. Það var góð tilfinning þegar Ragnar [Skúli Ragnar Skúlason) og fólkið í teyminu tók á móti okkur með stóru brosi. Það vakti upp von innra með mér.“
Eftir að Essam fékk stöðu flóttamanns tók hann meirapróf og starfar nú sem strætóbílstjóri í Reykjavík. Hann er afar ánægður í starfi og hefur ýmsar áætlanir um framtíðina. Hann telur afar mikilvægt að flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd fái góða aðstoð við að vinna úr erfiðri reynslu. „Margt þeirra á það sameiginlegt að glíma við þunglyndi, hræðslu og andlega erfiðleika vegna þess sem það hefur séð. Ég held því að þau þurfi mjög á sálfræðilegri aðstoð að halda.“
Fólk þurfi ekki að verða háð félagslegri aðstoð
Í sínu erindi lagði Ragheb Besaiso, sem er flóttamaður frá Palestínu, höfuðáherslu á mikilvægi þess að fólk fái mun meiri stuðning til þess að verða sjálfstætt í eigin lífi til að koma í veg fyrir að það þurfi að vera háð félagslegri aðstoð. Setja þurfi skýran fókus á aðlögun flóttafólks að samfélaginu. „Það ætti að leggja alla áherslu á að aðstoða fólk við að hámarka hæfileika sína, í stað þeirrar nálgunar að veita flóttafólki félagslega aðstoð svo árum skiptir, án þess að aðlögun þess að samfélaginu heppnist vel.“
Eitt af því sem Ragheb telur að þurfi að bæta er tungumálakennsla sem stendur flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd til boða. Hann telur hana þurfa að vera fjölbreyttari og taka mið af því hvað hópurinn er ólíkur innbyrðis. Þá telur hann að allt kapp þurfi að leggja á opna íslenskan vinnumarkað fyrir innflytjendum. Skortur á atvinnutækifærum og fordómar leiði til þess að mörg þeirra nái aldrei að nýta hæfileika sína og missi sjálfstraustið. Mikil hætta sé á félagslegri einangrun. Eins og staðan sé í dag sé íslenskt samfélag ekki nægilega opið fyrir flóttamenn. Hann telur til mikils að vinna að auka samskipti og upplýsingagjöf. „Um leið og flóttafólk er upplýst og meðvitað um réttindi sín og skyldur verður það líklegra til að vilja taka þátt. Þegar það finnur að það á raunverulegan möguleika á að aðlagast samfélaginu verður það opnara fyrir því að leggja sitt af mörkum.“
Þau Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, Helena N. Wolimbwa félagsráðgjafi og þau Skúli Ragnar Skúlason og Mirela Protopapa, í teymi um alþjóðlega vernd, fluttu einnig erindi á fundinum og lýstu stöðunni, áskorunum og tækifærum í þjónustu við flóttafólk og umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Hér er hægt að horfa á allan fundinn: