Drög að nýrri loftslagsáætlun til kynningar

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Drög að loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar til 2025 voru kynnt á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs í dag, 8. janúar 2021. Ráðið samþykkti að senda drögin til kynningar og frekara samráðs til hagaðila og almennings.

Markmið Reykjavíkurborgar er að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og að aðlögun að loftslagsbreytingum verði með vistvænum og mannvænum hætti. Stefnt er á að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að losun gróðurhúsalofttegunda sé helmingi minni árið 2030 miðað við 2019. Aðgerðir verða endurskoðaðar árið 2025 og á fimm ára fresti eftir það í samræmi við Parísarsamkomulagið 2015. Árangur verður mældur a.m.k. árlega.

Á liðnu ári var óskað eftir samráði vegna endurskoðunar á aðgerðáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum og meðal annars leitað til almennings. Samráð og samvinna um máið var góð enda tók margt fólk og hagsmunaaðilar þátt og bárust góðar ábendingar og hugmyndir. Áhersluatriðunum sem komu þar fram má skipta í sex meginmarkmið; gönguvæn borg, orkuskipti, heilsueflandi ferðamátar, hringrásarhugsun, lágkolefnisbyggingarefni og hönnun, kolefnisbinding. 

Fyrirhugað er að taka loftslagsáætlunina til fyrstu umræðu í borgarstjórn 19. janúar 2021 og safna saman athugasemdum og ef til vill viðbótum sem færu síðan aftur til stýrihópsins til frekari vinnslu. Senda má athugasemdir og gagnrýni í síðasta lagi 22. janúar á usk@reykjavik.is

Áratugur aðgerða framundan

Næsti áratugur verður mikilvægur prófsteinn á það hvernig tekist verður á við loftslagsvána. Ef markmið Parísarsamkomulagsins á að nást þarf losun að helmingast fram til ársins 2030 og svo aftur á næsta áratug á eftir. Margir ólíkir aðilar þurfa því að leggja hönd á plóginn. 

Aðgerðirnar eru einskonar leiðarvísir að því hvert verður haldið næstu fimm árin en þurfa frekari vinnslu til að hægt sé að magnsetja, kostnaðarmeta og tímasetja. Markmiðið með aðgerðunum er að Reykjavíkurborg leggi sitt af mörkum til að markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 gráðu náist. 

Tengill

Loftslagsáætlun 2021-2025 - drög