Fulltrúar fólksins okkar í borginni er að þessu sinni þríeyki sem brúar bilið milli menningarheima hjá Reykjavíkurborg. Þetta eru brúarsmiðirnir Kriselle Lou Suson, Salah Karim Mahmood og Magdalena Elísabet Andrésdóttir.
Kriselle er frá Filippseyjum, Salah Karim er frá Kúrdístan eða Norður-Írak og Magdalena Elísabet er frá Póllandi og saman mynda þau teymi hjá Miðju máls og læsis. Þau brúa bilið milli tungumála og menningarheima með því að veita rágjöf og fræðslu til starfsfólks allra skólastiga, leik-, grunnskóla og í frístundastarfi auk þess sem þau veita börnum, foreldrum og kennurum stuðning.
Hlutverk þeirra er fyrst og fremst að styðja við íslenskunám barna til að opna leið þeirra að íslensku samfélagi sem og að fræða fjölskyldur um íslenskt skólakerfi í samanburði við aðrar þjóðir. Þau opna hliðið að íslensku samfélagi með því að benda á mikilvægi íslenskrar tungu jafnframt því að hlúa að móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna.
En af hverju lá leið þeirra til Íslands og hvernig horfði samfélagið við þeim? Magdalena kom systur sinnar vegna, Kriselle til að sameinast móður sinni og Salah flúði stríðið í Írak.
Leist ekkert á Ísland
Magdalena ríður á vaðið og segir frá sjálfri sér og hvernig örlögin urðu til þess að hún settist að hér á landi. „Systir mín kom hingað á undan mér og fór vestur á Ísafjörð að vinna í fiski. Þetta var erfitt, sama vetur og það féllu mannskæð snjóflóð, fyrst á Súðavík og svo á Flateyri. Mér leist ekkert á þessa för hennar hingað. En við systurnar áttum engan annan að en hvor aðra og efnahagsástandið í Póllandi var bágborið á þessum tíma svo ég ákvað að fara til Íslands í nokkra mánuði til að vinna. En bara í stuttan tíma og ekki svona langt út á land eins og systir mín,“ segir Magdalena. Hún kom hingað árið 1998 og byrjaði að vinna í frystihúsi í Kópavogi þar sem hún kynntist nánast strax eiginmanni sínum, Auðuni. „Hann átti þrjú börn og við höfum eignast tvö saman svo við eigum fimm börn,“ segir Magdalena.
Hún þurfti eins og allir útlendingar þurftu þá að sanna í fjögur ár að hún hefði vinnu áður en hún gat sótt um ótímabundið dvalarleyfi, sem gaf henni frelsi til að búa hérna, vinna og nema. Árið 2004 fékk hún svo ríkisborgararétt. Leið Magdalenu að brúarsmíði var í vinnu með leikskólabörnum. Fyrst vann hún í tíu ár við stuðning á leikskólanum Austurborg en árið 2012 varð hún brúarsmiður hjá leikskólanum Ösp. Árið 2018 fór hún í kennaranám í HÍ til að ná sér í réttindi og um leið veitti hún tungumálaráðgjöf og heimsótti leikskóla borgarinnar með fræðslu og ráðgjöf. Samhliða öllu þessu vann hún í þrjú ár hjá landlæknisembættinu þar sem hún benti á mikilvægi þess að vernda tannheilsu barna af erlendum uppruna. Hún hóf störf hjá Miðju máls og læsis árið 2017 og vinnur þar samhliða námi. Á þessum árum hefur hún unnið að fjölmörgum spennandi verkefnum sem snúa að samfélagi Pólverja á Íslandi og farið með starfsfólki á skrifstofu skóla- og frístundasviðs borgarinnar, kennurum í leik- og grunnskólum og starfsfólki frístundamiðstöðva í fræðsluferðir til Póllands. Magdalena á 24 ára dóttur og 17 ára dreng en þau eru bæði í framhaldsnámi og sonurinn gallharður Víkingur.
Magdalenu, sem leist ekkert á ferðir systur sinnar til að byrja með, sér ekki annað fyrir sér en að verða gömul á Íslandi. „Ég á í dag sterkari rætur á Íslandi en í Póllandi. Hér er allt mitt fólk og það er líklegra að við hjónin eyðum hluta af árinu á Mallorca en í heimalandinu ,“ segir Magdalena að lokum.
Stríðsflóttamaður
Salah Karim Mahmood kom hingað á flótta frá stríðinu í Norður-Írak 8. nóvember árið 1996. Hann gleymir seint kuldanum og strekkingnum sem mætti honum við komuna. Hann fékk íbúð í Fellahverfinu og vinnu í Kassagerðinni. Hann rifjar upp að stundum gat snjóað svo mikið í Fellunum að ófært var niður í Laugarnes. Þrjú ár liðu áður en konan hans kom og fór líka að vinna í Kassagerðinni. „Hún kom hingað á aðfangadegi í miklu vetrarríki og það var erfiðast fyrir okkur bæði að venjast skammdeginu.“ Þegar þau höfðu fengið ótímabundið dvalarleyfi fór Susan Rafik, kona Salah, að læra íslensku í Háskóla íslands en Salah hafði þegar farið á námskeið hjá Reykjavíkurborg. Þegar hann hætti hjá Kassagerðinni fór hann að vinna hjá Actavis lyfjafyrirtækinu og svo fór hann til Sjúkratrygginga Íslands þar sem hann starfaði til ársins 2019 en hann gekk til liðs við brúarsmiði árið 2020. Hann fór fljótlega eftir komuna hingað að túlka fyrir annað flóttafólk sem kom frá löndum sem höfðu kúrdísku og arabísku sem móðurmál. „Þetta var í fyrstu ekki stór hópur. Einhverjir komu eins og ég frá Írak en svo fjölgaði verulega í hópnum þegar stríðið í Sýrlandi hófst og nú eru þetta um 200 manns sem eru mælandi á kúrdísku og fleiri sem tala arabísku og væntanlega kemur einhver hópur frá Afganistan, sem mun þurfa túlka og ráðgjöf á þeirra tungumáli, pashto , Farsi og Urdo,“ segir hann. Salah hefur starfað mikið með BIRTU en það er stoðdeild í Álftamýrarskóla sem er skólaúrræði fyrir börn og stuðningsverkefni fyrir fjölskyldur sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Þau hjónin eiga tvö börn 16 ára strák, sem líkt og sonur Magdalenu er í Víking og 18 ára stelpu. Bæði eru þau í framhaldsskóla. Fjölskyldan hefur haldið í kúrdíska arfleið og varðveitir móðurmálið sem er kúrdíska. „Við höfum talað okkar mál heima svo krakkarnir hafa lært bæði kúrdísku og íslensku“. Hann segir tugi landa sína hafa flutt til annarra norrænna ríkja þar sem margt er einfaldara, t.d. að fá metna menntun og reynslu. Þeir biðja Salah gjarnan um að flytja líka því Ísland er of langt í burtu frá öllu en hann vill vera hér. „Börnin okkar vilja elta sína drauma og nema erlendis og konan mín talar stundum um að setjast að í sveitasælunni í Kúrdistan þegar við förum á eftirlaun en hér fæddust börnin, hér er okkar ríkisborgararéttur og hér höfum við fest rætur,“ segir Salah.
Kvaddi sex börn til að veita þeim menntun
Marilou, mamma Kriselle, kom til Íslands frá Filippseyjum árið 1999 til að börnin hennar sex gætu fengið betri menntun. Valið stóð á milli Kanada og Íslands og tilviljun ein réð því að Ísland varð fyrir valinu. Í fjögur ár sendi hún peninga heim fyrir námi barna sinna en um leið og hún hafði fengið ótímabundið dvalarleyfi sótti hún um leyfi til að fá börnin til Íslands. Þegar hún sótti um leyfið voru tveir elstu bræður Kriselle orðnir 18 og 20 ára og fengu því ekki landvistarleyfi en hingað kom Kriselle ásamt þremur systkinum sínum.
„Það var gríðarleg breyting að koma hingað sem 15 ára unglingur. Ég kom í október og það var tíu stiga frost en heima var enginn munur á peysu og úlpu því það var aldrei nógu kalt til að nota úlpu. Það er bara til eitt orð á filippísku,Tagalog, um yfirhöfn. Ég skildi ekki eitt orð í íslensku og þaðan af síður myrkrið. Heima er sólarupprás og sólsetur alltaf á sama tíma,“ segir hún og brosir. Systkinin þurftu öll að fara í sóttkví því Filippseyjar var skilgreint sem þriðja heims ríki. Kriselle fór í Háteigsskóla þar sem hún fékk mikla íslenskukennslu og henni leið vel. Hún lauk grunnskóla með ágætum og leiðin lá í Menntaskólann við Hamrahlíð, MH. Þó að móðir hennar væri orðin íslenskur ríkisborgari fékk Kriselle bréf þegar hún varð 18 ára um að hún þyrfti að sýna fram á eigin framfærslu. Hún var hálfnuð með menntaskóla og þurfti nú að sýna fram á eigin framfærslu til að geta verið áfram í landinu. „Mamma var þá að vinna í félagslegri heimaþjónustu og ég fékk vinnu þar líka og gat haldið áfram að læra með vinnu.“
Kriselle kynntist eiginmanni sínum, Xabier, í MH en hann er frá Spáni. Þau eiga eitt barn og annað á leiðinni. Á heimilinu er töluð enska, spænska, filipseyska og íslenska svo öll eru þau fjöltyngd. Kriselle fór í alþjóðlegt nám í menntunarfræðum og systkini hennar eru öll langskólagengin. Bræður hennar eru fluttir til Svíþjóðar og systir hennar skoðar nám erlendis. Kriselle og Xabier hafa fest rætur á Íslandi og Kriselle segir að þó fjölskyldan vilji fá þau til Svíþjóðar þá séu rætur þeirra hér. „Ég bara orka ekki að læra enn eitt tungumálið og hér eigum við gott líf,“ segir Krisella og hlær.
Að gæta móðurmáls og íslensku gildir hér og nú
Þegar spjallað er við Magdalenu, Salah og Kriselle verður fljótt ljóst að íslenskt samfélag getur bætt sig þegar kemur að því að taka á móti fólki sem leitar hér skjóls. Ekki síst þegar kemur að því að viðurkenna menntun þeirra. Marilou, móðir Kriselle, var meinatæknir en vann í heimaþjónustu. Salah er menntaður tæknifræðingur þegar hann kemur til Íslands en fær verkamannavinnu í Kassagerðinni. Ein ástæða þess að langskólagengin systkini Kriselle hafa farið héðan til annarra norrænna ríkja er hve illa hefur gengið að fá störf sem hæfa menntun þeirra.
Í samtali við þríeykið tala þau oft um sérstöðu skólakerfisins og í ráðgjöf og samstarfi við fjölskyldur halda foreldrar oft á tíðum að allt sé í lagi með skólagöngu barna sinni því þau fara á milli skólaára. Fólk þekkir ekki að börn sem ekki standast þá færni sem til þarf til að fara upp um bekk fái að fara áfram af þeirri ástæðu einni að vera samferða jafnöldrum sínum.
Ekki síst af þessum sökum er samstarf brúarsmiða við foreldra gífurlega mikilvægt. Hér geta börn farið í gegnum grunnskóla án þeirrar kunnáttu sem til þarf og svo lenda þau í vandræðum í framhaldsskóla. Við vitum að brottfall meðal barna af erlendum uppruna er mjög hátt í framhaldsskólum. Salah bendir á sérstöðu flóttafólks og nefnir sem dæmi sýrlenska fjölskyldu sem hefur verið á flótta í fimm ár áður en hingað kemur og á þeim tíma er rof á menntun barna. Þau byrja svo í skóla hér með jafnöldrum sínum þrátt fyrir að hafa verið fimm ár án skólagöngu og að þau kunna ekki orð í íslensku auk þess að vera jafnvel ólæs á sínu eigin móðurmáli.
Magdalena, Kriselle og Salah tala líka um að það sé jafn áríðandi að fá foreldra til að bera virðingu fyrir ágæti og nauðsyn íslenskunnar og að leyfa börnunum að halda áfram að læra móðurmál sitt. Það er ekki nóg að börnin fái aðstoð heldur þarf að styðja fjölskylduna í að skilja mikilvægi íslenskunnar í aðlögun að samfélaginu. „Foreldrar þurfa að vera jákvæðir fyrir íslenskunámi barnanna vegna,“ segja þau. Það er óhætt að fullyrða að Magdalena, Salah og Kriselle brenna fyrir starfi sínu sem brúarsmiðir milli menningar- og tungumálaheima og að íslenskt samfélag á þeim mikið að þakka.
#fólkiðokkaríborginni #Fólkiðokkar #Fólkiðíborginni #hittumstáworkplace