Breyting á gjaldi íbúakorta

Samgöngur

""

Með breytingum á gjaldi íbúakorta, sem borgarráð samþykkti í dag, fá eigendur hreinna rafmagns- og vetnisbíla helmingsafslátt. Eftir sem áður verður gjald fyrir íbúakort í Reykjavík töluvert lægra en verð sambærilegra korta á Norðurlöndunum.

Bílastæðasjóður Reykjavíkur gefur út íbúakort til íbúa sem búa á íbúakortasvæðum innan miðborgar Reykjavíkur. Borgarráð samþykkti í dag að hækka gjöld fyrir íbúakortin á gjaldsvæðum 1-4.

Gjald fyrir íbúakort fer úr 8.000 kr. á ári í 1.250 kr. á mánuði fyrir hreina rafmagns- og vetnisbíla og 2.500 kr. á mánuði fyrir aðra bíla. Eftir breytinguna verður gjald fyrir íbúakort í Reykjavík þó áfram töluvert lægra en sambærileg kort í sveitarfélögum á Norðurlöndunum.

Nýlega voru reglur um bílastæðakort einfaldaðar og fjölguðu þær breytingar til muna íbúum sem rétt eiga á kortunum. Íbúðir sem rétt hafa til úthlutunar eru nú um sjö þúsund talsins, en til samanburðar eru nú í gildi rúmlega eitt þúsund íbúakort.

Kortið veitir íbúum heimild til að leggja bifreið án endurgjalds í gjaldskylda stöðureiti innan gildissvæðis íbúakorts, þ.e. nálægt búsetu korthafa. 

Gjaldtaka í hverjum mánuði eykur sveigjanleika fyrir íbúa. Þá styðja grænir hvatar í gjaldskrá íbúakorta við betri loftgæði og áherslur borgarinnar í loftslagsmálum.