„Ég vissi alltaf hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég vildi vinna með fólki og fyrir fólk. Þegar ég var í menntó frétti ég af spennandi námi sem kallaðist félagsráðgjöf. Hún var ekki kennd hér á þeim tíma, svo ég þurfti að fara til Noregs til að læra hana. Það gerði ég, síðan eru liðin fjörutíu ár og ég hef fylgt þessari köllun.
Í meira en fimmtán ár hef ég unnið við uppbyggingu á þjónustu við flóttafólk í Reykjavík. Ég brenn fyrir þá vinnu. Með mér á velferðarsviði vinnur mikið af flottu fólki með gríðarlegan áhuga á málefnum fólks af erlendum uppruna. Nánast alla daga hlakka ég til að fara í vinnuna og fyrir það er ég þakklát.
Að vinna með fólki alls staðar að úr heiminum þykir mér afar áhugavert. Ég hef lært margt af störfum mínum, faglega en ekki síður sem manneskja. Eftir að ég fór að vinna með fólki af erlendum uppruna fór ég skynja heiminn öðruvísi, lesa fréttir öðruvísi. Í vinnunni fáum við að heyra alls konar sögur. Sumar er erfitt að heyra og stundum finnst mér að ég sé stödd í miðri skáldsögu. En gleðisögurnar sem verða til þegar vel gengur og bæta það margfalt upp.
Fyrir nokkrum árum kom flest flóttafólk hingað til Íslands sem kvóttaflóttafólk í boði ríkisstjórnarinnar. Nú koma sífellt fleiri á eigin vegum og langflest setjast að í Reykjavík. Á tveimur árum, 2019 og 2020, eru þetta um 750 manns. Það er því bæði ánægjulegt og bráðnauðsynlegt að þjónusta við þennan hóp taki á sig fastara form.
Ég bind vonir við að nýi samningurinn sem Reykjavíkurborg og félagsmálaráðuneytið hafa gert með sér eigi eftir að breyta heilmiklu. Framundan er mikil þróunarvinna. Það eru margir þættir í þjónustunni sem við þurfum að móta, skýra og samþætta. Til dæmis viljum að ráðgjafar á þjónustumiðstöðvum fái meira svigrúm til að veita flóttafólki gæðaþjónustu og þéttan stuðning. Ég sé líka fyrir mér að nú fáum við fleiri millimenningamiðlara til starfa, að ráðgjafar okkar fái tækifæri til að fara í fleiri vitjanir heim til fólks og menningarnæmi okkar aukist. Ég myndi líka vilja sjá fleira fólk af erlendum uppruna í vinnu hjá Reykjavíkurborg, í sérfræðingastörfum og á sem flestum sviðum.
Flóttafólk er ólíkt innbyrðis og það búa misjafnar ástæður að baki því að það hefur flúið heimalönd sín. Flest á fólkið þó sameiginlegt að bera með sér reynslu í bakpokanum sem það þarf aðstoð við að vinna úr. Þessi samningur gerir okkur betur í stakk búin til að styðja við flóttafólk og veita því meiri þjónustu. Við verðum að við gerum okkur grein fyrir því sem samfélag hversu mikill mannauður býr í flóttafólki. Við þurfum að gera fólki kleift að nýta hæfileika sína og rækta þá, að fá menntun sína og starfsreynsu metna á sanngjarnan máta.
Þetta er tímamótasamningur sem nú hefur verið gerður. Velferðarkerfið er að bregðast við og nú þurfa önnur kerfi og stofnanir samfélagsins að taka við sér líka.“
Edda Ólafsdóttir er frumkvöðull í þróun á þjónustu fyrir flóttafólk hjá Reykjavíkurborg. Hún stýrir nýju teymis á velferðarsviði sem ætlað er að veita flóttafólki stóraukna þjónustu. Tilurð teymisins má rekja til þess að félagsmálaráðuneytið og Reykjavíkurborg hafa skrifað undir samning um aukna þjónustu við allt að 500 einstaklinga á ári, sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og sest að í Reykjavík. Edda er stundakennari í Háskóla Íslands. Hún á meðal annars heiðurinn að þverfaglega námskeiðinu Flóttafólk og hælisleitendur sem kennt er við Háskóla Íslands og þróun og uppbyggingu námskeiðsins fjölmenningarfélagsráðgjöf sem kennt er í félagsráðgjafadeild HÍ. Árið 2017 hlaut hún hvatningarverðlaun velferðarráðs fyrir störf sín í málaflokknum.