Börn á tekjulægri heimilum fá frekari styrk til íþrótta- og tómstundaiðkunar

Velferð Íþróttir og útivist

""

Sérstakan frístundastyrk sem ætlaður er börnum sem búa á tekjulægri heimilum er hægt að nýta til að greiða fyrir skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. Styrkurinn er 25 þúsund krónur á hvert barn og frestur til að sækja um hann er til 31. desember 2021.

Markmið með sérstökum frístundastyrk er að öll börn geti stundað íþróttir og aðrar tómstundir. Félagsmálaráðuneytið kynnti sérstakan frístundastyrk fyrst til sögunnar í fyrra, þegar á Covid-19-faraldrinum stóð. Sú breyting hefur nú verið gerð að ekki þarf lengur að leggja út fyrir námskeiðum og skila inn kvittunum til að fá styrkinn greiddan. Styrkurinn leggst saman við frístundastyrk Reykjavíkurborgar, hjá þeim foreldrum sem hafa rétt á honum. 

Til að nýta styrkinn þarf að nota rafrænt skráningarkerfi Sportabler til að skrá barn í íþrótt eða aðrar tómstundir. Í skráningarferlinu velja foreldrar hvort þeir samþykki að kannað verði hvort þeir hafi rétt á styrknum. Samþykki þeir það og reynist eiga rétt á styrknum leggst hann saman við hefðbundinn frístundastyrk. Styrkupphæðin sem viðkomandi hefur til úthlutunar birtist þá á skjánum. Hægt er að velja þá upphæð sem nýta á til greiðslu viðkomandi námskeið og í framhaldinu er gengið frá greiðslu eftirstöðvanna í kerfinu og skráning staðfest. 

Til að eiga rétt á styrknum þurfa umsækjendur að eiga lögheimili í Reykjavík, barnið eða börn þeirra að vera fædd á bilinu 2006 og 2015 og eiga lögheimili hjá umsækjanda. Þá þurfa heildartekjur heimilisins vera undir 787.200 krónum á mánuði á tímabilinu mars til júní 2021. Styrkurinn er 25 þúsund krónur á hvert barn til áramóta og er stefnt á að sambærilegur styrkur verði veittur á ný eftir áramót. 

Hægt er að lesa meira um styrkinn og tilkomu hans á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins