Börn á Skýjaborgum minna á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna
Skóli og frístund Mannréttindi
Þann 20. nóvember fyrir 32 árum var samningur um réttindi barna lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til undirritunar og fullgildingar.
Barnasáttmálinn var fullgiltur á Íslandi árið 1992 og lögfestur þann 20. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf. Barnasáttmálinn er sá mannréttindasamningur sem hefur verið staðfestur af flestum þjóðum.
Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi; þau eigi sín eigin réttindi – óháð réttindum fullorðinna. Að börnum að 18 ára aldri séu tryggð ákveðin grundvallarréttindi, réttinn til verndar, til umönnunar og þátttöku.
Í tilefni af 32 ára afmæli barnasáttmálans komu börn af frístundaheimilinu Skýjaborgum og afhentu borgarstjóra afmæliskort barnasáttmálans sem þau hafa unnið að þessa viku. Með kortunum vildu þau vekja athygli á sáttmálanum og hvetja borgarstjóra og borgarfulltrúa til að standa vörð um réttindi barna í samfélaginu.