Börn funda með ráðherra um umhverfisvernd

Skóli og frístund

""

Börn úr fjórtán  leik- og grunnskólum, sem tekið hafa þátt í LÁN- verkefninu, Listrænu ákalli til náttúrunnar, áttu fund með Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindarráðherra í dag. Þeim lá margt á hjarta í umhverfismálum. 

Tilefni þessa umræðufundar með ráðherra var sýning á rannsóknarverkefnum nemenda í 2. bekk Melaskóla í Borgarbókasafninu en þeir hafa verið að skoða líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu og við ströndina. Nemendur hafa vaxandi áhyggjur af umhverfinu og þeirri hættu sem stafar af útblæstri koltvísýrings og hlýnun jarðar. Í vinnu sinni hafa þau m.a. nálgast þetta stóra viðfangsefni í gegnum myndlist og dans og sýndu þau ráðherra afraksturinn ásamt kennurum sínum.   

Góðar umræður sköpuðust á fundinum og fékk ráðherra spurningar eins og hvernig eru Íslendingar að standa sig í loftslagsmálum og hvernig er hægt að fá fleira fólk til að hjóla og nota strætó?

Ráðherra svaraði spurningum og spurði krakkana um þeirra sjónarhorn.

Fundarstjóri var Ida Karolína Harris, nemandi við Laugalækjarskóla en þessi fundur er hluti af lokaverkefni hennar og fleiri skólafélaga um líffjölbreytileika.

Sýninguna með listaverkum barnanna má skoða næstu vikurnar í Borgarbókasafni Grófinni.