Borgin skapar 200 störf til að draga úr atvinnuleysi

Velferð Stjórnsýsla

""

Borgarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag tillögur að markvissum vinnu- og virkniaðgerðum vegna erfiðrar stöðu á vinnumarkaði sem orsakast af heimsfaraldri kórónuveiru.

Aðgerðirnar eru til næstu tveggja ára. Komið verður á fót atvinnu- og virknimiðlun sem mun hrinda virkni- og vinnuaðgerðum í framkvæmd í áföngum eftir því hvernig staðan á vinnumarkaði þróast á tímabilinu 2021- 2022. Annars vegar er um að ræða vinnumiðlun á vegum mannauðs- og starfsumhverfissviðs og hins vegar stuðnings- og virkniúrræði á vegum velferðarsviðs.

Fyrsti áfangi mun hefjast nú í febrúar. Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar mun þá undirbúa störf fyrir 200 einstaklinga. Annars vegar 150 störf og stuðningsúrræði fyrir einstaklinga sem eru án atvinnu og með bótarétt og hins vegar 50 störf fyrir vinnufæra einstaklinga sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu. Samstarf verður við Vinnumálastofnun varðandi þessi úrræði. Til að koma tillögunum í framkvæmd verða ráðnir sérfræðingar sem munu starfa við vinnumiðlun og stuðningsaðgerðir. Heildarkostnaður Reykjavíkurborgar við verkefnið er áætlaður 460 milljónir króna.

Tillögurnar voru unnar af starfshópi sem borgarráð skipaði 19. nóvember síðastliðinn og var falið að móta nýtt fyrirkomulag  að markvissum vinnu- og virkniaðgerðum Reykjavíkurborgar vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði áfram talsvert og að margir þeirra sem missa bótarétt hjá Vinnumálastofnun muni leita eftir framfærslu í gegnum fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg leggur ríka áherslu á að vera með markviss viðbrögð við ástandi á vinnumarkaði sem eru til þess fallin að draga úr skaða atvinnuleysis og langtímaáhrifum þess á einstaklinga. Góð reynsla er hjá Reykjavíkurborg af virkni- og vinnumarkaðsaðgerðum en borgin brást skjótt við afleiðingum COVID-19 á vinnumarkaði með bráðaaðgerðum vegna aukins atvinnuleysis síðastliðið vor. Brugðist var við með ráðningum alls 457 námsmanna 18 ára og eldri í sumarstörf og ráðningum tæplega 100 einstaklinga í störf bæði í samvinnu við Vinnumálastofnun og Velferðarsvið síðastliðið haust.

Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar verður samstarfsverkefni mannauðs- og starfsumhverfissviðs og velferðarsviðs.

Vinnu- og virkniaðgerðir falla undir félagslegar áherslur Græna plans Reykjavíkurborgar.