Reykjavíkurborg mun taka þátt í stuðningsverkefni vegna innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í íslenskum sveitarfélögum. Þetta var samþykkt í borgarráði í gær. Einnig voru samþykktar tilnefningar tveggja fulltrúa borgarinnar til að bera ábyrgð á innleiðingarvinnunni og munu þær Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, sérfræðingur á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, annast verkefnið.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja SÞ árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála og alþjóðasamstarfs. Heimsmarkmiðin mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu og fela í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir og snúast markmiðin til að mynda um sjálfbærni, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna og að útrýma hungri og fátækt.
Samband íslenskra sveitarfélaga mun styðja við innleiðingu heimsmarkmiðanna í sveitarfélögum á grundvelli verkfærakistu um hana, sem gefin var út í maí síðastliðnum en þar eru sett fram fimm skref, sem ætlað er að leiðbeina sveitarfélögum við markvissa innleiðingu heimsmarkmiðanna. Kistan byggir á erlendum fyrirmyndum auk dæma frá Íslandi.
Stuðningsverkefnið, sem hlaut styrk úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, hefst nú í haust og stendur til vors 2022. Markmið þess er meðal annars að yfirfæra þekkingu á milli sveitarfélaga og fjölga sveitarfélögum sem náð hafa árangri í innleiðingu heimsmarkmiðanna.