Tillögur stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs voru kynntar í skóla- og frístundaráði í dag en þær miða að því að bæta starfsumhverfi, draga úr álagi á börn og starfsfólk, stytta vinnuvikuna og tryggja gæði leikskólastarfs með þarfir barna í huga.
Tillögur stýrihópsins byggja á ítarlegri tölfræði, könnunum meðal foreldra og jafnréttismati.
Tillögur stýrihópsins í hnotskurn:
- að opnunartími leikskóla borgarinnar verði frá kl. 7:30-16:30, í stað 7:30-17:00.
- að 1-2 leikskólar í hverju hverfi verði opnir til kl.17:00 til að koma til móts við þá foreldra sem þurfa á lengri leikskóladvöl að halda
- að dvalartími barna verði að hámarki 9 klukkustundir daglega og 42,5 stundir á viku, sem sem felur í sér að dvalartími getur verið breytilegur.
- að meginþungi faglegs starfs í gegnum leik og viðfangsefni barna með íhlutun leikskólakennara fari fram frá kl. 8:30-14:00, þ.e. starf sem byggir á aðalnámskrár leikskóla, stefnu, hugmyndafræði og námskrá leikskólans og menntastefnu Reykjavíkurborgar.
- að hafist verði handa við að endurskoða líkan sem fjárúthlutanir til leikskóla byggja á.
- að þeir leikskólar sem bjóða upp á lengri opnunartíma fái fjárheimildir til að tryggja nauðsynlega mönnun til kl. 17:00
- að haldið verði áfram margvíslegum aðgerðum til að bregðast við nýliðunarvanda leikskólakennara og koma til móts við mönnunarvanda í leikskólunum.
Betri þjónusta við stærri barnahóp
Í skýrslu stýrihópsins kemur fram að með breyttum opnunartíma sé hægt að ná fram verulegum umbótum í skipulagi leikskólastarfsins og bæta daglegt umhverfi barna og starfsfólks. Þar með megi bæta þjónustu við flest börn sem dvelja í leikskólunum, þétta fagstarfið á opnunartíma leikskólans, auðvelda mönnun og draga úr álagi á börn og starfsfólk.
Einnig sé mikilvægt að taka tillit til þeirra foreldra, sem þurfa á lengri vistunartíma að halda, líkt og fram kom í jafnréttismati. Til að mæta þörfum foreldra sem hafa dvalarsamning eftir klukkan 16:30 verður skilgreindur að minnsta kosti einn leikskóli í hverju hverfi þar sem boðið verður upp á þjónustu til kl. 17:00.
Skóla- og frístundasvið samþykkti á fundi sínum í dag að vísa tillögum stýrihópsins í umsagnarferli hjá hagsmunaaðilum áður en þær fá formlega afgreiðslu í borgarstjórn.
Sjá skýrslu stýrihópsins sem skipaður var borgarfulltrúum. Með hópnum störfuðu leikskólakennarar, leikskólastjórar og sérfræðingar.