Barnabókamessa 18. og 19. nóvember

Skóli og frístund

""

Efnt verður til barnabókamessu í Hörpunni dagana 18. og 19. nóvember 2021 í Hörpu í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og Félag íslenskra bókaútgefenda. Markmiðið er að efla bókakost skólabókasafna borgarinnar og glæða áhuga barna og ungmenna á lestri nýrra íslenskra bóka.

Á barnabókamessu er lögð áhersla á að kynna nýjar íslenskar barna- og ungmennabækur fyrir fulltrúum skólasafna grunnskóla og leikskóla borgarinnar og er þeim tryggt viðbótarfjármagn til að kaupa nýjar bækur fyrir skólabókasöfnin á kynningarverði. Skóla- og frístundaráð borgarinnar hefur samþykkt 9 milljóna króna fjárveitingu til skólanna til bókainnkaupa á messunni.

Á árinu 2017 gengu skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Félag íslenskra bókaútgefenda til samstarfs um verkefni til að glæða áhuga barna og ungmenna á bóklestri. Barnabókamessan var haldin öðru sinni í nóvember 2018 og voru þá gerðar nokkrar breytingar á tilhögun, opnunartíma og staðsetningu messunnar til að mæta betur þeirri miklu aðsókn sem skapaðist strax í byrjun.

Barnabókamessan verður að þessu sinni í salnum Rímu á 1. hæð Hörðu dagana 18. og 19. nóvember. Sú tímasetning tekur mið af því að þá má ætla að flestar nýjar barnabækur verði komnir út en hægt verður að panta allar bækur sem komnar verða á markað. Gert er ráð fyrir viðveru höfunda, myndskreyta og útgefenda sem verða tilbúnir til samtals um verk sín.