Reykjavíkurborg hefur gert jafnréttisúttekt á öllum níu hverfisíþróttafélögunum í Reykjavíkurborg en borgin styrkir starfsemi allra félaganna. Þar kemur m.a. fram að 66% iðkenda eru karlkyns og 34% iðkenda kvenkyns.
Í samningi borgarinnar við félögin segir m.a. að Íþróttabandalag Reykjavíkurborgar og íþróttafélögin skuli sjá til þess að allir njóti jafnra tækifæra til að stunda og starfa við íþróttir án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu. Þar segir einnig að þau skuli hafa virka jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun til að fylgja eftir stefnunni. Í úttektunum var skoðað hvort félögin væru með jafnréttisstefnur og hvernig þau mæta þessum kröfum.
Úttektirnar, sem unnar voru á árunum 2016, 2020 og 2021, sýna að félögin vinna afar öflugt starf í hverfum borgarinnar en það eru tækifæri til úrbóta. Félögin eru öll með jafnréttisstefnur en það skortir á að þær séu innleiddar með markvissum hætti, t.d. eru ekki gerðar þær úttektir sem kveðið er á um í aðgerðaráætlunum með stefnunum.
,,Jafnréttisúttektirnar hafa verið gerðar til að styðja íþróttafélögin í því að huga betur að jafnrétti í íþróttum í víðum skilningi og voru þær unnar í samráði við ÍBR og í náinni samvinnu við félögin. Þeim verður svo fylgt eftir með samtali um hvernig hefur gengið að bregðast við og leiðir til úrbóta, enda er jafnt aðgengi að íþróttaiðkun þvert á hópa gríðarmikilvægt réttlætis- og lýðheilsumál“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur sem gegnir hlutverki jafnréttisnefndar borgarinnar.
Hallar á kvenkyns og hinsegin og iðkendur og fáir iðkenda eru innflytjendur
Síðasti kafli jafnréttisúttektarinnar var kynntur í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði í gær og í þeim þremur félögum sem síðast voru tekin út kemur m.a. eftirfarandi í ljós:
- 66% iðkenda eru karlkyns og 34% iðkenda kvenkyns.
- Um 4% drengja og 3% stúlkna í félögunum þremur eru af innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð á meðan þessi hópur er um 20% íbúa í Reykjavík.
- Erfitt hefur reynst að fá sjálfboðaliða í stjórnir og telja félögin einkum erfitt að ná til kvenna.
- 65% stjórnarmeðlima í öllum stjórnum félaganna eru karlar og 35% þeirra konur.
- Kynjasamsetning er jafnari í aðalstjórnum félaganna þar eru 59% meðlima karlar og 41% konur.
- Æfingatímar, æfingamagn og æfingaaðstaða er sambærileg hjá öllum félögum fyrir stúlkur og drengi.
- Skortur virðist vera á búningsklefum almennt hjá öllum félögunum, ókyngreinda klefa vantar og aðgengi fyrir fatlað fólk er ábótavant.
- Góð samvinna virðist vera við skóla, frístundamiðstöðvar og þjónustumiðstöðvar í hverfunum.
- Félögin leggja sig öll fram við að koma til móts við efnaminni iðkendur, upplýsingar um þann stuðning mættu þó vera aðgengilegri.
Hverfisíþróttafélögin eru Ungmennafélagið Fjölnir, Knattspyrnufélagið Þróttur, Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Glímufélagið Ármann, Íþróttafélagið Fylkir, Knattspyrnufélagið Valur, Íþróttafélag Reykjavíkur, Knattspyrnufélagið Fram og Knattspyrnufélagið Víkingur. Þau þrjú síðastefndu eru þau félög sem skoðuð voru á þessu ári.
Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa vann úttektirnar sem voru gerðar í góðri samvinnu við íþróttafélögin. Beint var sjónum að þátttöku þeirra hópa sem mannréttindastefna Reykjavíkurborgar nær til, það er; mismunandi kynja, hinsegin fólks, fólks af erlendum uppruna og fatlaðs fólks. Allar úttektirnar eru aðgengilegar á vefsíðu Reykjavíkurborgar.