Auknar tilslakanir í starfsemi velferðarsviðs

Velferð

""

Ekki þarf lengur að nota grímur á starfsstöðum velferðarsviðs, þegar hægt er að virða tveggja metra reglu. Fólk sem sækir mötuneyti eða hópastarf getur verið grímulaust með einn metra sín á milli, að því gefnu að það sitji í fyrirfram bókuðum sætum. Enn gildir grímuskylda hjá starfsfólki þegar veitt er aðstoð sem krefst meiri nálægðar en tveggja metra. Bólusetning starfsfólks eða notenda þjónustu kemur ekki í veg fyrir grímuskyldu. 

Með nýrri reglugerð sem tók gildi í dag, 25. maí, eru fjöldatakmarkanir í hverju rými færðar úr 50 manns í 150. Á öllum vinnustöðum og í annarri starfsemi þarf að tryggja að tveggja metra reglunni sé fylgt. 

Reglurnar sem nú gilda á velferðarsviði, þar á meðal í öllu starfi með eldri borgurum og í málaflokki fatlaðs fólk, eru eftirfarandi: 

  • Allt að 150 manns mega koma saman í rými ef hægt er að halda almennar nálægðartakmarkanir. 
  • Halda þarf tveimur metrum á milli þeirra sem ekki eru í nánum tengslum. 
  • Þeim sem eru í nánum tengslum er heimilt að hafa einn metra sín á milli. 
  • Þegar ótengdir aðilar sitja saman í mötuneytum og hópastarfi á félagsmiðstöðvum mega þeir hafa einn metra sína á milli, að því gefnu að þeir sitji í bókuðum sætum.
  • Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
  • Starfsfólk notar grímur við umönnun, svo sem þegar aðstoðað er við athafnir við daglegt líf, þegar ekki er hægt að tryggja 2 metra nálægðarmörk.

Félagsstarf opið á ný fyrir gesti og gangandi 

Rýmkun á fjöldatakmörkunum hefur talsverð áhrif á starf eldra fólks í borginni, þar sem ýmsar takmarkanir hafa verið í gildi til að hefta útbreiðslu Covid-19. Matarþjónusta og hópastarf hefur verið opið með takmörkunum. Nú hefur þeim takmörkunum verið aflétt að miklu leyti. Matarþjónusta og félagsstarf í félagsmiðstöðvum þar sem þjónustuíbúðir eru til húsa er nú að nýju opið fyrir gesti og gangandi. 

Eftirfarandi reglur gilda nú í starfi félagsmiðstöðva velferðarsviðs, til viðbótar við þær almennu sem taldar voru upp hér að ofan: 

  • Í mötuneytum þarf að skrá alla matargesti fyrirfram með nafni, kennitölu og símanúmeri. Gestir eru skráðir á ákveðin borð. 
  • Nauðsynlegt er að gestir skrái sig með nafni, kennitölu og símanúmeri í alla viðburði. 
  • Starfsfólki og gestum sem kjósa að nota grímur er frjálst að gera það áfram.
  • Starfsfólk notar grímur þegar matur er settur á diska.
  • Gestir skenki sér sjálfir kaffi og gæti vel að persónulegum sóttvörnum.

Áfram þarf að gæta vel að persónubundnum sóttvörnum. Mikilvægt er að gestir hafi í huga að þeir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: 

  • eru í sóttkví.
  • eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).
  • hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
  • eru með einkenni á borð við kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki og niðurgang.  

Velferðarsvið hefur óskað eftir nánari leiðbeiningum frá Almannavörnum höfuðborgarsvæðisins, fyrir þá einstaklinga sem þegar hafa verið bólusettir gegn Covid-19. Þeim upplýsingum verður miðlað áfram um leið og þær berast. Sem stendur kemur bólusetning starfsfólks eða notenda þjónustu ekki í veg fyrir grímuskyldu.