Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti í dag Apótekinu viðurkenningu fyrir bestu jólaskreytingu 2021 hjá rekstraraðila í miðborginni.
Þetta er í fyrsta sinn sem borgin veitir þessa viðurkenningu en henni er ætlað að hvetja rekstraraðila til að skreyta hjá sér því Reykjavík er jólaborgin og skreytingar skipta miklu máli í því að skapa fallega, hlýlega og jólalega ásýnd í miðborginni.
Apótek Kitchen og Bar er vel að þessari viðurkenningu komið og lýsingin hefur skapað fallega og jólalega ásýnd í hjarta Reykjavíkur. Skreytingar eru vel útfærðar fagurfræðilega og lýsa upp allt umhverfið í skammdeginu. Skreyting eins og hjá Apótekinu fær fólk til að staldra við, líta upp og njóta stundarinnar í jólaborginni.
Bergdís Örlygsdóttir, eigandi Apóteksins, segir frábært að fá viðurkenninguna. „Það er búið að vera dimmt yfir og okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt í ár, lífga aðeins upp á miðbæinn,“ segir hún.
Eva Hrönn Guðnadóttir hjá Kríu hönnunarstofu, hannaði skreytingarnar og setti þær upp ásamt föður sínum, Guðna Oddssyni. „Það er um að gera að fá aðeins meiri heimsborgarbrag í Reykjavík,“ segir hún. „Maður sér stórar og miklar skreytingar í öllum stórborgum erlendis. Fólk fyllist jólaanda og tekur myndir, þetta er frábært fyrir alla.“