Antirasistarnir eru íslensku aktívistarnir þær Anna Sonde, 15 ára, Kristín Reynisdóttir, 18 ára, og Valgerður Kehinde Reynisdóttir, 18 ára en þær fengu Frumkvöðlaverðlaun samtakanna Nordic Safe Cities eða Öruggar borgir á norðurlöndunum fyrir að fræða fólk um kynþáttafordóma og mismunun á Íslandi.
Þær stöllur halda úti síðu á Instagram sem nefnist Antirasistarnir en á síðunni deila þær staðreyndum og reynslusögum til þess að auka meðvitund um kynþáttafordóma og mismunun á Íslandi. Með skilaboðunum á síðunni sinni vilja þær Anna, Kristín og Valgerður skapa aukna umræðu um umburðarlyndi og fjölmenningu á Íslandi.
Auk Antirasistanna hlutu þrjú önnur verkefni verðlaunin þau eru:
Nooh Dib frá Malmö í Svíþjóð, Nagin Ravand frá Árósum í Danmörku og Seqininnguaq Qitura frá Nuuk í Grænlandi.Verðlauna afhendingin fór fram í sænska sendiráðinu í Kaupmannahöfn í síðustu viku.
Um Frumkvöðlaverðlaunin
Frumkvöðlaverðlaunin eru veitt norrænum ungmennum sem hafa á ýmsan hátt sýnt frumkvæði til að auka öryggi og samheldni í sínu nærumhverfi með því að berjast gegn skautun, hatri og félagslegri útskúfun. Verðlaunin eru fyrstu norrænu verðlaun sinnar tegundar og hljóta verðlaunahafar 500 þúsund króna styrk ásamt stuðningi frá Nordic Safe Cities.
Alls bárust 40 tilnefningar frá öllum Norðurlöndunum í ár. Átta manna dómnefnd skipuð fulltrúum yngri en 30 ára frá öllum Norðurlöndunum völdu úr fjögur verkefni sem unnu til verðlauna að þessu sinni.
Verðlaunin eru sameiginlegt samstarf Nordic Safe Cities, norrænu sendiráðanna í Kaupmannahöfn, Norrænu ráðherranefndarinnar og alþjóðlegu nýsköpunarstofnunar ungmenna, UNLEASH.
Nordic Safe Cities er bandalag 20 borga, þar á meðal allra norrænna höfuðborga, sem vinna að því að auka öryggi í borgum á Norðurlöndunum. Samtökin aðstoða aðildarborgir við að auka öryggi í borgum, standa gegn aukinni skautun og berjast gegn öfgahyggju og hatri . Nordic Safe Cities Alliance var stofnað af norrænu Ráðherranefndinni árið 2016 og eru í dag sjálfstæð félagasamtök. Reykjavíkurborg hefur verið aðili að samtökunum síðan 2017.