Alþjóðlegi klósettdagurinn er haldinn í dag og af því tilefni er gott að minna á hverju má sturta niður. Það á aðeins þrennt að fara í klósettið: Piss, kúkur og klósettpappír. Klósettið er enginn staður fyrir eyrnapinna, bómullarhnoðra, blautklúta, smokka og annað rusl. Þessir hlutir eiga að enda í ruslatunnunni. Auðvitað er svo besta lausnin að nota sem minnst af einnota hreinlætisvörum. Við eigum öll okkar þátt í mengun í vatni og sjó og því er það í okkar höndum að draga úr henni.
Vissir þú?
- 120 tonn af úrgangi komu inn í hreinsistöðvarnar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík árið 2019 og var urðaður í Álfsnesi.
- 120 tonn af úrgangi eru hálft kíló af rusli í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu.
- Kostnaður sveitarfélaga vegna aðgerða í tengslum við úrgang í fráveitum hleypur á tugum milljóna króna á ári.
- Hver einstaklingur notar að meðaltali 140 lítra af vatni á dag.
- Lyfjaleifum má alls ekki sturta í klósettið heldur á að fara með þær í næsta apótek eða endurvinnslustöð.
- Lyfjaleifar finnast í íslenskum vötnum og sjó og geta lyfjaleifar í umhverfinu haft skaðleg áhrif á sjávar- og landdýr.
- Blautþurrkur, smokkar, eyrnapinnar, tannþráður og annar úrgangur á að fara í ruslið.
- Ekki sturta niður blautþurrkum í klósett sem merktar eru af framleiðanda sem „flushable“ því þær valda einnig álagi á umhverfið og fráveitukerfin.
Kynntu þér málið hér og taktu þátt í deginum.