Áhrif úrskurðar kærunefndar útboðsmála íþyngjandi fyrir íbúa

Samgöngur Umhverfi

""

Reykjavíkurborg hefur óskað eftir frestun réttaráhrifa vegna úrskurður kærunefndar útboðsmála um hleðslustöðvar fyrir rafbíla

Reykjavíkurborg hefur farið fram á frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útboðsmála frá 11. júní sl. sem kveður á um óvirkni samnings Reykjavíkurborgar við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um uppsetningu og rekstur á hleðslustöðvum frá úrskurðardegi. Þar sem kærandi útboðsins, Ísorka ehf., hefur beint því til kærunefndarinnar að Reykjavíkurborg verði beitt dagsektum meðan beiðnin er til meðferðar hefur verið óskað eftir því við ON að slökkt verði á hleðslustöðvum á meðan beðið er eftir niðurstöðu.

Réttaráhrif íþyngjandi fyrir borgarbúa

Uppsetning hleðslustöðva og bætt aðgengi að orku víðsvegar um Reykjavík er ætlað að hvetja borgara til orkuskipta í samræmi við markmið borgarinnar á sviði orkumála um að borgin verði kolefnislaus árið 2040. Fjöldi rafbíla hefur á stuttum tíma farið vaxandi innan Reykjavíkur en samkvæmt tölum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda voru rafbílar um 45,5% nýskráðra bíla á fyrstu fimm mánuðum 2021.

Uppsetning og rekstur hleðslustöðva sem boðnar voru út í útboðinu er ætlað að mæta þörfum þeirra sem ekki geta hlaðið bíla sína við heimili sín og gera þeim kleift að eiga og reka rafbíla. Krafa um tafarlausa óvirkni samningsins mun leiða til mikilla óþæginda fyrir íbúa borgarinnar sem nota þær 156 hleðslustöðvar sem ON rekur samkvæmt samningnum, og munu nú þurfa að loka fyrir aðgang að, þótt óljóst sé hversu lengi sú lokun muni vara.

Sérstakar aðstæður réttlæta beiðni um frestun

Reykjavíkurborg telur að sérstakar ástæður réttlæti að beiðni um frestun á réttaráhrifum verði tekin til greina

  • Aðalskylda samningsins um uppsetningu hleðslustöðva hefur þegar verið uppfyllt að næstum öllu leyti og þjónusta verið við borgarbúa til samræmis við ákvæði samningsins um nokkurt skeið. Því er niðurstaða úrskurðarins verulega íþyngjandi fyrir aðila máls og íbúa og gesti Reykjavíkur.
  • Fyrirséð er að óvirkni samningsins, jafnvel þótt hún kunni einvörðungu að vara um skamman tíma, mun leiða til þess að eigendur rafbíla sem hafa fjárfest í þeim í trausti þess að eiga auðvelt aðgengi að hraðri hleðslu þeirra eiga nú erfiðara um vik með að nýta sér þá. 
  • Ákvörðun kærunefndar útboðsmála frá 22. október sl. þar sem kröfu Ísorku ehf. um að umrætt útboð yrði stöðvað um stundarsakir var hafnað. Báðir samningsaðilar, Reykjavíkurborg og ON, voru því í góðri trú um að halda áfram með að efna samninginn sem komst á í kjölfar hins kærða útboðs.

Af hálfu Reykjavíkurborgar stendur yfir vinna við að kanna grundvöll þess að láta reyna á lögmæti úrskurðarins sem eins og áður hefur komið fram, lýtur að áætlaðu verðmæti samnings, kostnaðaráætlun, og hvort bjóða hefði átt út sérleyfissamning á Evrópska efnahagssvæðinu í stað almenns útboðs sem fór fram innanlands. Samhliða því er unnið að undirbúningi nýs útboðs.