Atvinnulausum hefur fækkað í öllum aldurshópum í Reykjavík frá upphafi ársins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársfjórðungsskýrslu borgarvaktar í velferðar- og atvinnumálum, sem lögð var fyrir borgarráð í dag.
Á fundi borgarráðs 26. mars 2020 voru samþykktar 13 tillögur um aðgerðir til að bregðast við afleiðingum COVID-19 faraldursins. Ein laut að því að koma á fót borgarvakt í velferðar- og atvinnumálum til að vakta afleiðingar faraldursins á borgarbúa og atvinnulífið. Skilgreindir voru vísar sem fylgjast þyrfti með og eru skýrslur borgarvaktarinnar lagðar fram ársfjórðungslega í borgarráði. Þá hefur gagnaþjónusta þjónustu- og nýsköpunarsviðs unnið að gerð mælaborðs borgarvaktarinnar.
Í ársfjórðungsskýrslu fyrir annan ársfjórðung, apríl til júní, 2021 er fjallað um stöðu mála í Reykjavík hvað varðar 12 vísa, þar á meðal atvinnuleysi, skólastarf, útköll vegna heimilisofbeldis, tilkynningar til barnaverndar og útgefin byggingarleyfi.
Atvinnuleysi þróast í átt að því sem var fyrir heimsfaraldur
Í júní, við lok annars ársfjórðungs, var atvinnuleysi loks orðið lægra en sama mánuð fyrir ári, þegar atvinnuleysi í Reykjavík samkvæmt Vinnumálastofnun var 8,1% samanborið við 9,3% í júní 2020. Þróunin hélt áfram niður á við og í júlí mældist atvinnuleysi í Reykjavík 7,3% en var 9,4% í fyrra. Heilt yfir er atvinnuleysi að þróast í átt að því sem var fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Við lok annars ársfjórðungs hafði atvinnulausum Reykvíkingum fækkað um tæp 26% frá lokum fyrsta ársfjórðungs, en í júní voru 6.422 Reykvíkingar atvinnulausir samanborið við 8.636 í mars. Í júlí var sá fjöldi 5.684, sem er fækkun um 11,5% milli mánaða.
Í öllum aldurshópum hefur atvinnulausum fækkað frá upphafi árs, en athygli vekur að í hópi 60-69 ára eru fleiri atvinnulausir í júlí 2021 en í sama mánuði í fyrra. Er það eini hópurinn þar sem atvinnulausum fækkar ekki yfir tólf mánaða tímabilið.
Fylgst ítarlega með líðan barna og unglinga
Frá haustinu 2020 hefur orðið mikil aukning í beiðnum um skólaþjónustu, þ.e. tilvísanir, viðtalsbeiðnir og bráðamál. Náðu þær sögulegu hámarki þegar beiðnir urðu 428 nú í mars og hefur þetta leitt af sér langa biðlista. Á öðrum ársfjórðungi fækkaði beiðnum og voru þær 199 í júní. Ef eingöngu er skoðuð aðal tilvísunarástæða hefur hlutfall ástæðunnar „tilfinningalegir erfiðleikar“ aukist úr 6% í janúar 2020 í 12% í júní 2021 eða úr 28 börnum í 131 börn. Í ljósi vísbendinga um að vanlíðan hafi aukist er fylgst ítarlega með líðan barna og unglinga. Í skýrslunni er líka fjallað um augljós áhrif faraldursins á framhaldsskólanema.
Tilkynningar um heimilisofbeldi
Einn vísanna snýr að útköllum vegna heimilisofbeldis og vekur athygli að útköll þar sem kona er brotaþoli voru orðin 188 við árslok 2020. Þetta er 15% aukning frá árinu á undan og mesti ársfjöldi sem skráður hefur verið frá því verkefnið Saman gegn ofbeldi hófst árið 2015. Uppsafnaður fjöldi útkalla vegna heimilisofbeldis þar sem kona var brotaþoli var nú í júlí 102, samanborið við 117 í fyrra. Fjöldi útkalla þar sem karl var brotaþoli var 30 í júlí, en var 22 í fyrra.
Tilkynningum til barnaverndar fækkaði
Mikil aukning var á tilkynningum til barnaverndar á árinu 2020 en heildarfjöldi var 5.316. Áfram voru tilkynningar margar á fyrsta ársfjórðungi 2021, eða 1.382. Tilkynningum fækkaði aftur á móti á öðrum ársfjórðungi og var heildarfjöldi í apríl, maí, júní og júlí í öllum tilvikum lægri en í sama mánuði í fyrra.
Mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík
Fækkað hefur á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði frá apríl 2020 og hefur sú þróun haldið áfram á fyrsta og öðrum árfjórðungi 2021. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru gefin út ríflega helmingi færri byggingarleyfi en allt árið 2020, sem er merki um áframhaldandi kröftuga íbúðauppbyggingu í Reykjavík. Samtals hefur bygging hafist á um 6.500 nýjum íbúðum frá ársbyrjun 2015 og er það mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík. Nú í júní voru um 2.400 íbúðir í byggingu í Reykjavík.