Aðgengisstefna Reykjavíkurborgar

Mannréttindi Mannlíf

""

Óskað er eftir reynslusögum frá borgarbúum um aðgengismál og hugmyndum um það sem betur mætti fara í aðgengismálum í borginni. Sögur og hugmyndir borgarbúa nýtast svo við gerð aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar.

Nú er unnið að gerð aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar en markmiðið með henni er að gera borgina aðgengilega öllum óháð fjölbreyttum aðgengisþörfum. Stefna Reykjavíkurborgar í aðgengismálum mun leitast við að tryggja að fólk verði ekki sökum fötlunar útilokað frá aðgengi að þeim rýmum sem opin eru almenningi. Á sama hátt verði fólk ekki útilokað frá upplýsingum og þjónustu borgarinnar á grundvelli fötlunar.

Við mótun stefnunnar verður leitað til íbúa Reykjavíkur til þess að fá vitneskju um aðgengismál og hvað mætti fara betur. Opnað hefur verið fyrir vefsvæði á vefnum Betri Reykjavík þar sem hægt er að senda inn reynslusögur af aðgengi í borginni og koma með hugmyndir að því sem betur mætti fara. Hægt er að senda inn reynslusögur til 23. apríl nk.

Hægt er að senda inn reynslusögur/hugmyndir í þremur flokkum:

Borgarland

Aðgengissögur og hugmyndir sem snúa að aðgengismálum í borgarlandinu. Til dæmis aðgengi á gangstéttum og stígum, leiksvæðum, almenningsgörðum og öðrum útisvæðum.

Upplýsingar og þjónusta

Aðgengissögur og hugmyndir sem snúa að aðgengi að upplýsingum um þjónustu borgarinnar og aðgengi að þjónustunni sjálfri. Til dæmis þjónustu sundlauga og safna, velferðarþjónustu, frístundaþjónustu o.fl.

Byggingar Reykjavíkurborgar

Aðgengissögur og hugmyndir sem snúa að aðgengi að byggingum Reykjavíkurborgar. Til bygginga Reykjavíkurborgar teljast til dæmis flestir grunn- og leikskólar í borginni, þjónustumiðstöðvar, sundlaugar, söfn o.fl.

Vertu með!

Taktu þátt í að bæta aðgengi í borginni, við viljum fá ykkar reynslu og sýn á þennan málaflokk.

Það er auðvelt að taka þátt, viðkomandi skráir sig inn á Betri Reykjavík eða velur að taka þátt án innskráningar. Þá er hægt er að senda inn sögur/hugmyndir með því að skrifa texta eða senda inn hljóðupptöku. Einnig er hægt að láta myndir eða myndband fylgja með.

Þær aðgengissögur og hugmyndir sem berast munu svo nýtast við mótun á aðgengisstefnu Reykjavíkurborgar en henni mun jafnframt fylgja aðgerðaáætlun um úrbætur í aðgengismálum.