Útivistarsvæðin í borginni iða af lífi

Umhverfi

""

Reykvíkingar eru heppnir að geta valið milli margra spennandi útivistarsvæða þar sem er hægt að viðra sig og næra líkama og sál. Þessi svæði eru sérstaklega mikilvæg nú á tímum samkomubanns og aflýstra viðburða. Náttúran er enn opin og á útivistarsvæðum er auðvelt að hlýða Víði og virða tveggja metra regluna en á sama tíma finna fyrir ákveðinni nálægð við annað fólk.

Kosturinn við Reykjavík er að það er stutt í alls konar náttúru, bæði heiðar og fjöll og strandlengjan veitir líka mörg tækifæri til hreyfingar og útivistar. Elliðaárdalurinn hefur sem dæmi iðað af lífi að undanförnu. Þar má sjá fjarvinnufólk í heilsubótargöngu, ákafan hund með eigandann í bandi á eftir sér og fólk á hjóli og jafnvel rafskútum. Fjölskyldur eru á ferli og brjóta upp heimaskóladaginn með útiveru og samveru.

Sömu sögu er að segja um Fossvogsdal og mörg önnur svæði. Ennþá meira pláss er síðan upp í Heiðmörk svo annað dæmi sé tekið. Skíðasvæðin eru kannski lokuð en það er ennþá hægt að fara í fjallgöngur eins og á Úlfarsfell og Esjuna.

Gönguferðir, náttúruskoðun og hugleiðsla

Samkvæmt nýrri þjónustukönnun Reykjavíkurborgar nýta Reykvíkingar helst opin svæði til gönguferða, eða 86,1% og 45% nota þessi svæði til samverustunda. Stundum er auðvitað hægt að sameina þetta tvennt og jafnvel fleira því margir nota útiveruna til náttúruskoðunar (29,9%) og líka til leikja (23%) og líkamsræktar (23,8%). Hundar viðruðu 16,6% af þáttakendum og heil 10,3% notuðu helst opin svæði í Reykjavík til hugleiðslu.

Samkvæmt könnunum á vegum borgarinnar hafa Laugardalur, Reykjavíkurtjörn, Elliðaárdalur, Nauthólsvík, Klambratún, Heiðmörk, Öskjuhlíð, Fossvogsdalur og Grafarvogur verið vinsælustu útivistarsvæðin síðustu ár. Reynisvatn, Geldinganes og svæðið við Rauðavatn er dæmi um önnur skemmtileg svæði sem eru ekki eins mikið sótt.

Hreyfing er leið til vellíðunar

Borgargarðar eins og Elliðaárdalur og Fossvogsdalur eru heppilegir til útivistar um þessar mundir því þeir eru stór græn svæði þar sem náttúrulegt umhverfi og hið manngerða kallast á. Til borgargarða flokkast sem dæmi einnig Gufunes, Laugarnes, Úlfarsárdalur og Öskjuhlíð.

Embætti landlæknis hefur skilgreint fimm leiðir að vellíðan sem byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað skiptir mestu máli fyrir vellíðan okkar. Hreyfing er ein af þessum fimm leiðum en útivistarsvæði eru einmitt kjörin til að nýta til líkamsræktar. Gott göngustígakerfi eykur lífsgæði, hvetur til útivistar og stuðlar að bættri lýðheilsu.

Hreyfing úti í náttúrunni hefur áhrif á marga þætti í okkar daglega lífi eins og liðleika, samhæfingu og sjálfsmynd. Rannsóknir sýna að því meira sem þú ert úti í náttúrunni og á hreyfingu, því sterkara ónæmiskerfi ertu með og útiveran leiðir einnig til færri tilvika streitu og þunglyndis.

Það er því ekki eftir neinu að bíða. Notaðu helgina til dæmis til að heimsækja útivistarsvæði sem þú hefur ekki komið á áður. Á upplýsingavef um græn svæði í Reykjavík er hægt að finna upplýsingar um grænu svæðin í borginni, flokkun þeirra eftir útbreiðslu og eiginleikum. Öll helstu svæði eru talin upp og enn fremur eru tenglar í sérsíður um einstök svæði. Allir ættu að geta fundið svæði við sitt hæfi einhvers staðar í borginni.