Taktu þátt í gerð velferðarstefnu til framtíðar

Velferð

""

Búið er opna íbúagátt á vef Reykjavíkurborgar og Reykvíkingar eru hvattir til að segja skoðun sína á þjónustu velferðarsviðs og taka þannig þátt í mótun nýrrar velferðarstefnu til framtíðar.

Velferðarráð samþykkti síðastliðið haust að mótuð yrði heildstæð stefna á sviði velferðarmála til næstu tíu ára. Þar ræður miklu að breyttar kröfur eru til þjónustu og það kallar á breytt vinnulag sem hefur áhrif á starfsþróun sviðsins. Velferðarsvið leitar af því tilefni aðstoðar borgarbúa við að móta nýja velferðarstefnu með ósk um að taka þátt í stuttri könnun í íbúagátt um þjónustuna. 

Stefnan verður fyrsta stefna borgarinnar þar sem heildstætt verður fjallað um velferðarmál, en þegar eru til stefnur í einstaka málaflokkum, s.s. varðandi málefni eldri borgara, fatlaðs fólks og heimilislausra.

Markmið

Stefnumótun mun gefa heildarmynd af þeim mismunandi málaflokkum sem heyra undir velferðarsvið og gefa skýra mynd af forgangsröðun verkefna sem verða leiðarljós í skipulagi starfseminnar og þjónustu sviðsins.

Með nýrri stefnu er gerð fimm til tíu ára tíma- og verkáætlun þar sem gæði þjónustunnar verða efst á baugi. Horft er til fjölda þjónustumiðstöðva í borginni, hvar þær eru staðsettar og hver kjarnastarfsemi þeirra ætti að vera. Einnig verður horft á samspil þjónustumiðstöðva við Barnavernd og skrifstofu sviðsins til að tryggja flæði þekkingar og verklags milli starfsstöðva. Auk þess  verður áfram unnið að því að auka samstarf velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs borgarinnar. "Ég vil hvetja alla borgarbúa, sem láta sig velferð og lýðheilsu varða, að segja skoðun sína og taka þannig þátt í mótun velferðarstefnu til framtíðar. Þín skoðun skiptir máli.“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs.

Breitt samráð

Vinna við stefnumótunina er hafin í samvinnu við hagsmunaðila,  kjörna fulltrúa, starfsfólk velferðarsviðs og samstarfsaðila, sem öll hafa fengið senda vefkönnun. Og nú leitum við til almennings. Sérstök íbúagátt er á vef Reykjavíkurborgar þar sem öllum Reykvíkingum gefst tækifæri til að segja sína skoðun á velferðarþjónustu borgarinnar.  Niðurstöður verða kynntar í september nk.

Vertu með í mótun nýrrar stefnu og taktu þátt í könnun um velferðarþjónustu