Streymt frá fundi íbúaráða um aðalskipulag

Skipulagsmál

""

Miðvikudaginn 11. nóvember klukkan 15:00 verður beint streymi frá fundi íbúaráða borgarinnar um aðalskipulag Reykjavíkur til ársins 2040.

Haraldur Sigurðsson, deildarstjóri aðalskipulags, heldur kynninguna fyrir öll íbúaráð borgarinnar. Hann kynnir þar drög að tillögum að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur. Öllum er velkomið að horfa á fundinn sem verður streymt beint af Facebook síðu Reykjavíkurborgar.

Tillögurnar gera ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 í stað 2030 áður og í tilefni þess eru sett fram ný megin markmið í völdum málaflokkum.

Við mótun tillagnanna var horft til þess að tvinna betur saman áætlanir um uppbyggingu húsnæðis og fjölgun íbúa og starfa, við áform um byggingu og styrkingu vistvænna samgöngukerfa; Borgarlínu, stofnleiðir Strætó, hjólastígakerfi og gönguleiðir. Það er í takti við Loftslagsstefnu borgarinnar til ársins 2040, leiðarljós svæðisskipulags til ársins 2040, megin markmið gildandi aðalskipulags, áform húsnæðisáætlunar og áherslur Græna plansins.

Skapa á forsendur fyrir kröftugri vöxt borgarinnar jafnhliða því að styðja við markmið um sjálfbæra borgarþróun, kolefnishlutleysi árið 2040, vernd náttúrusvæða og líffræðilega fjölbreytni  og samkeppnishæft, lífvænlegt, réttlátt og fjölbreytt borgarsamfélag.

Hægt er að gera athugasemdir við tillögurnar fram til 27. nóvember næstkomandi.

Nánar um breytingar á aðalskipulagi