Það hefur ekki verið þrautalaust að halda úti skólahljómsveitarstarfi í samkomubanni síðustu mánuði. Stjórnendur og kennarar hafa engu að síður sýnt ótrúlega útsjónarsemi til að halda úti kennslu og æfingum. Afraksturinn tók á sig ýmis form og má meðal annars merkja í skemmtilegum tónlistarjólakveðjum sem teknar voru upp á myndband.
Tónlistarstarf í skólahljómsveitum Reykjavíkur hefur þurft að móta eftir sóttvarnareglum hverju sinni nánast allt árið 2020. Það tókst að halda uppi einkakennslu að mestu, stundum í fjarnámi, og kennarar og nemendur hafa haldið öllu gangandi og sýnt mikla seiglu. Hljómsveitaræfingar hafa hins vegar ekki verið heimilaðar nema að litlu leyti og núna á síðustu vikum ársins var tækifærið gripið til þess að taka upp jólakveðjur til aðstandenda í smærri hópum. Hópastærðir fóru eftir aldri í samræmi við sóttvarnareglur eins og sjá má á myndunum.
Í Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar voru tekin upp myndbönd í Neskirkju, Vesturbæjarskóla og Hljómskálanum og þau klippt saman í hátíðardagskrá fyrir fjölskyldur að horfa á saman heima.
Í Skólahljómsveit Grafarvogs var elsta hljómsveitin í samstarfi við ungmennahljómsveit hjá Miðstöðinni sem sendi inn jólalag inn í jólalagakeppni Rásar 2. Við þetta lag var unnið myndband sem nemendur elstu hljómsveitarinnar tóku þátt í að vinna. Lærdómsríkt framleiðsluferli og spennandi tækifæri!
Miðstöðin er samstarfsverkefni Tónlistarskólans í Grafarvogi, Nýja tónlistarskólans og Tónmenntaskólans. Auk þess gerði yngsta hljómsveitin myndband af síðustu hljómsveitaræfingunni sem sent verður foreldrum.
Í Skólahljómsveit Austurbæjar voru tekin upp jólamyndbönd með öllum þremur hljómsveitum. Þar sem börnin máttu einungis hittast í minni hópum var hver hljómsveit tekin upp í þrennu lagi þ.e. slagverk, málmblástur og tréblástur. Í kjölfarið voru hljóð og mynd klippt saman til að mynda heilar hljómsveitir. Þessi myndbönd eru jólakveðja hverrar sveitar til aðstandenda í stað jólatónleika.
Í Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts var farin sú leið að halda ferna hátíðlega tónfundi á sviðinu í Breiðholtsskóla þar sem flestir nemendur komu fram. Engir áhorfendur voru í sal heldur var þeim öllum streymt á lokaðri facebooksíðu skólahljómsveitarinnar. Þeir voru einnig teknir upp og kennurum stóð til boða að klippa myndböndin og nemendum að senda jólakveðjur á sína aðstandendur. Þeir nemendur sem ekki komu fram á tónfundum voru stundum teknir upp af sínum kennara og myndband sent á foreldra. Stofnuð var lítil hljómsveit sem lék á jólaballi Breiðholtsskóla, sem er heimastöð hljómsveitarinnar.
Engin þessara verkefna hefðu verið möguleg án elju tónlistarkennara barnanna og ástundunar nemenda á þessum skrýtnu tímum. Stuðningur fjölskyldna hefur verið mikill og þátttaka í stöðugu endurskipulagi góð. Stjórnendur skólahljómsveita í Reykjavík vilja þakka nemendum, kennurum og öllum sem stutt hafa nemendur okkar og sýnt starfinu áhuga fyrir samstarfið á árinu sem er að líða!