Miklar áskoranir hafa verið í starfi velferðarsviðs í kórónuveirufaraldrinum. Eitt af þeim verkefnum sem sviðið hefur sinnt er að hringja í eldri borgara sem eru orðnir 85 ára og eldri og búa heima.
Verkefnið sem hér um ræðir hófst í byrjun nóvember, þegar ákveðið var að hringja í alla Reykvíkinga sem eru 85+ og fengu ekki hringingu í vor en þá var svipað verkefni í gangi. Velferðarsvið óskaði eftir liðsauka frá starfsfólki borgarinnar á öðrum sviðum og fékk starfsfólk af menningar- og ferðamálasviði borgarinnar til liðs við sig til að sinna verkefninu. Skráðu sig 32 í verkefnið. Þá hafa nokkrir starfsmenn félagsmiðstöðvanna verið að hringja líka.
Nær 40 manns hafa því að undanförnu haft samband í gegnum síma við eldri borgara sem eru eldri en 85 ára, búa einir og njóta engrar aðstoðar frá velferðarþjónustu borgarinnar.
Að sögn Elísabetar Karlsdóttur, forstöðumanns Fjölskyldumiðstöðvar og félagsstarfs í Gerðubergi, sem hefur stýrt þessu verkefni hefur framtakið mælst mjög vel fyrir hjá þeim sem hringt hefur verið í. „Fólk er bæði hissa en líka ánægt með að fá símtalið, flestir hafa það gott, en vissulega sakna þau félagsstarfsins og þá nefna margir að það verði gott að komast aftur í sund. Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna þetta verkefni í samstarfi við starfsfólk Menningar- og ferðamálasviðs og við erum mjög þakklát fyrir liðsaukann. Flestir starfsmenn voru að hringja út í sínu hverfi svo það skapast tengsl þvert á svið milli starfsmanna borgarinnar. Eftir standa tengslanet sem verður auðveldara að virkja ef á þarf að halda aftur. Fjöldi 85 ára og eldri sem við hringjum í núna er 773 manns, verkefnið er langt komið, aðeins á eftir að hringja í um 80 manns og lýkur því í vikunni,“ segir Elísabet.
Áslaug Guðrúnardóttir er kynningarstjóri Listasafns Reykjavíkur en hefur meðfram starfi sínu hjá Listasafninu hringt í eldra fólk í Reykjavík sem býr eitt.
„Þetta er góð tilbreyting og yndislegt að heyra hvað fólk er jákvætt þrátt fyrir allt,“ segir Áslaug. „Ég var svolítið feimin að fara af stað en svo þegar maður byrjar er þetta ekkert mál og bara gaman.“
Starfsfólk Listasafnsins gaf sig fram í verkefnið og hefur verið ötult við að hringja meðfram hefðbundnum störfum. „Það eru allir mjög glaðir að heyra í okkur. Við kynnum okkur og segjumst vera að hringja fyrir velferðarsvið. Símtölin eru gerð til þess að kanna ástandið hjá fólki og bjóða fram aðstoð og þjónustu því margt er miklu erfiðara núna í þessu kórónuveiruástandi, margt lokað og svona auk þess sem eldra fólk þarf að fara sérstaklega varlega til að smitast ekki.“
Áslaug kveðst hafa getað aðstoðað þá einstaklinga sem hún hefur hringt í á ýmsa lund. Símtölin séu því bráðnauðsynleg. „Sumir eiga ekki marga að og heyra því í fáum. Við getum bent á ýmsa þjónustu sem er í boði á vegum borgarinnar og annarra og hvert á að sækja hana,“ segir hún. „Það hafa allir verið mjög glaðir að heyra í mér og mér hefur oftar en ekki hlýnað um hjartaræturnar í þessum samtölum.“