Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, og lögreglustjórinn í Reykjavík, Halla Bergþóra Björnsdóttir, hafa sameinast um að senda segulmottur ásamt bréfi til foreldra/forsjáraðila inn á heimili barna í fyrsta og sjötta bekk í grunnskólum borgarinnar til að minna á útivistarreglur.
Frá 1. september til 1. maí mega 12 ára börn og yngri lengst vera úti til klukkan átta á kvöldin og börn á aldrinum 13 til16 ára mega vera lengst úti til klukkan tíu á kvöldin. Yfir sumartímann þ.e. frá 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna og unglinga um tvo tíma.
Segulmottur með útivistarreglum og bréfi frá borgarstjóra og lögreglustjóra hafa verið send á reykvísk heimili í hart nær 20 ár. Það er gert forvarnaskyni og margir foreldrar/ forsjáraðilar segja motturnar stuðning við uppeldið, þær auðvelda uppalendum að minna börn á reglurnar og benda þeim á að reglurnar eigi við um öll börn. Jafnframt auðveldar þetta uppalendum að standa saman um að virða reglur um útivistartíma barna. Foreldrar/forsjáraðilar vilja börnunum sínum vel og vilja ekki að þau séu eftirlitslaus úti eftir myrkur. Verkefnið hefur verið kynnt erlendis og finnst mörgum það til fyrirmyndar.
Seglarnir munu berast foreldrum/forsjáraðilum í pósti öðru hvoru megin við helgi en kjörið er að setja þá á ísskápinn þar sem hann minnir fjölskylduna á útivistarreglurnar.
Reglurnar gilda allan ársins hring og alla daga, bæði virka daga, um helgar og hátíðisdaga. Stöndum saman að forvörnum og fræðslu fyrir börn og unglinga.