Reykjavík í undanúrslitum um nýsköpunarverðlaun Evrópu

Velferð Umhverfi

""

Reykjavíkurborg er meðal tólf borga í undanúrslitum um evrópsku nýsköpunarverðlaunin (European Capital of Innovation Award) en úrslitin verða kunngerð í lok september.

Þetta val er mikil viðurkenning fyrir Reykjavíkurborg og þau fjölmörgu nýsköpunarverkefni sem unnin eru þvert á fagsvið hennar. 

Dómnefnd skipuð óháðum sérfræðingum valdi Reykjavík í undanúrslit á grundvelli margvíslegra gagna um nýsköpun í þjónustu borgarinnar og hvernig henni hefur verið beitt í þágu samfélagslegrar umbreytinga, s.s. á sviði velferðarþjónustu, skóla- og frístundastarfs og borgarþróunar. Einnig hvernig  íbúar hafa með nýskapandi lausnum verið virkjaðir til lýðræðislegrar þátttöku í stefnumótun og ákvörðunum.

Í umsókn borgarinnar voru tilgreindi margvísleg verkefni sem byggja á stafrænum lausnum og aðferðum eins og notendamiðaðri þjónustu, og samsköpun. Má þar nefna verkefni eins og rafrænar íbúakosningar, hverfaskipulag, rafræna fjárhagsaðstoð, nýja menntastefnu, alþjóðleg samstarfsverkefni eins og SPARCS (The sustainable energy positive & zero carbon communities project) auk endurskipulags á stjórnskipun borgarinnar í þágu nýsköpunar.  

Sú borg sem hlýtur evrópsku nýsköpunarverðlaunin öðlast titilinn Nýsköpunarborg Evrópu 2020 auk fjárstyrks að andvirði einnar milljónar evra til að styðja við nýskapandi lausnir og samfélagsverkefni. Sérstök verðlaun verða veitt fimm borgum til viðbótar auk 100.000 evra fjárstyrks. Er þetta í sjötta sinn sem verðlaunin eru veitt en meðal vinningsborga eru Barselóna, Amsterdam, París og Aþena.