Starfsfólk og börn í leikskólanum Rauðhóli í Norðlingaholti senda hughreystandi skilaboð út í samfélagið.
Una Þorgilsdóttir, starfsmaður í leikskólanum Rauðhóli, fékk hugmyndina að gluggaverkefninu þegar Covid-19 faraldurinn var farinn að setja mark sitt á daglegt starf í leikskólanum sem er sá stærsti í borginni. Una er menntaður félagsráðgjafi og með diplómu í jákvæðri sálfræði.
"Ég var hugsi um vellíðan okkar allra; barnanna, foreldra og okkar starfsmannanna. Starfsmannahópurinn er þéttur og ég hef oft fundið hvernig það getur bjargað deginum að hittast í kaffitímanum og hlægja saman. Nú getum við ekki hist eins og fyrr og hver deild vinnur sem sjálfstæð eining með minni barnahópa. Ég saknaði þess að hitta vinnufélagana og ég hafði líka þörf fyrir að hafa áhrif á þetta ástand en á sama tíma að hughreysta sjálfa mig og aðra. Svo mér datt í hug að skrifa í gluggann hughreystandi og jákvæð skilaboð og þannig kasta einhverju uppörvandi út í okkar litla samfélag í Norðlingaholtinu."
Gluggaverkefnið hennar Unu vatt svo upp á sig og starfsmenn á öðrum deildum í Rauðhóli skrifuðu í sína glugga skilaboð til að hugga og hughreysta. Og svo kom líka tilefni til að senda afmæliskveðju til Vigdísar Finnbogadóttur á níræðisafmælinu.
Falleg hugsun og falleg skilaboð sem eiga erindi langt út fyrir Norðlingaholtið.