Ofbeldi er ekki náttúrulögmál

Velferð Mannréttindi

""

Ofbeldi gegn fötluðu fólki var til umræðu á opnum fundi velferðarráðs og ofbeldisvarnarnefndar. Rannsóknir sýna að fatlað fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en ófatlað fólk. Þátttakendum á fundinum bar saman um að leggja þurfi meiri trúnað á frásagnir fatlaðs fólks af ofbeldi.

Baráttukonan Steinunn Ása Þorvaldsdóttir var ein þeirra sem hélt erindi á Velferðarkaffi, opnum fundi velferðarráðs og ofbeldisvarnarnefndar, sem fram fór 4. desember. Þar var ofbeldi gegn fötluðu fólki til umfjöllunar. Steinunni þekkja margir úr sjónvarpi en hún vinnur líka á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar og er ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks. Á fundinum lýsti hún ofbeldi sem hún var beitt 18 ára gömul og áhrifunum sem það hafði á hana. Í erindi sínu lagði hún mikla áherslu á mikilvægi þess að fötluðu fólki sé trúað þegar það segir frá ofbeldi. Þá hvatti hún fatlaðar konur sérstaklega til að tala opinskátt um ofbeldi sem þær verða fyrir. „Það er erfitt að tala um þetta en það er nauðsynlegt. Þetta á ekki að vera feimnismál. Við erum svo mikilvægar og við öll – hvert og eitt okkar.“

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, stýrði fundinum. Hún tók undir mikilvægi þess að ræða ofbeldi gegn fötluðu fólki á opinskáan hátt. Rannsóknir sýni svart á hvítu að fatlað fólk, sérstaklega fatlaðar konur, verði frekar fyrir ofbeldi en aðrir. „Það er staðreynd sem þarf að vinna gegn. Hún er ekki náttúrulögmál og því er hægt að breyta,“ sagði Heiða. 

 

Aukin fræðsla og fjölgun fagfólks á velferðarsviði

Arne Friðrik Karlsson, þroskaþjálfi og leiðandi forstöðumaður á velferðarsviði, fór í gegnum aðgerðir Reykjavíkurborgar í málefnum fatlaðs fólks. Hann sagði meðal annars frá því að innan velferðarsviðs væri nú verið að þróa og bæta það ferli þegar nýtt starfsfólk er ráðið til starfa. Fagfólki hafi einnig fjölgað, sem sé mikilvægt þar sem það þjónar lykilhlutverki í að innleiða viðhorf, hugmyndafræði og rétt vinnubrögð.

Þá sagði hann unnið að því að auka og þróa fræðslu, bæði til starfsfólks og notenda þjónustu. Hann nefndi farandfræðslu á íbúðakjörnum sem dæmi um fræðslu sem vel hafi tekist til með. Í því tilviki fái íbúar og starfsfólk fræðslu á sama tíma sem sé dýnamísk leið sem skapi oft miklar umræður og vangaveltur. Þá ítrekaði hann mikilvægi þess að fólk fái aðstoð við að sækja sér fræðslu og í sumum tilvikum að meðtaka hana. 

Friðrik sagði jafnframt frá nýju þjónustumati sem er í vinnslu en ofbeldisskimun verður innbyggð í það. Skimað verði fyrir ofbeldi hjá fullorðnu fólki sem sækir um stuðnings- og stoðþjónustu og verði skimunin aðlöguð að hverjum og einum.  

Velferðarsvið veitir brotaþolum ofbeldis stuðning við að sækja sér áfallahjálp og aðstoð í kjölfar atvika en Arne Friðrik lagði líka áherslu á mikilvægi þess að tilkynna ofbeldi til réttindagæslumanna. Þá bindur hann miklar vonir við stuðnings- og ráðgjafateymi sem tekur til starfa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eftir áramót, sem muni veita ráðgjöf og stuðning. 

 

Nauðsynlegt að bæta aðgengi að málsmeðferð

Næstur tók til máls Jón Þorsteinn Sigurðsson, yfirmaður réttindagæslumanna hjá Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar. Hlutverk réttindagæslumanna er að veita fötluðu fólki stuðning og aðstoð við að leita réttar síns en þeir veita jafnframt öðrum ráðgjöf, til dæmis þeim sem telja brotið á fötluðu fólki í sínu umhverfi. 

Á þessu ári hafa réttindagæslumönnum borist 1069 mál. Mál þar sem unnið er eftir tilkynningum sem berast um brot á réttindum einstaklings eru 564 talsins það sem af er ári en þau voru 481 í fyrra. Ofbeldismál eru í þeim flokki. Jón  sagði dæmin sýna að stuðningur sem fatlað fólk fær við sína málsmeðferð sé ekki eins og best verður á kosið. Fatlað fólk hafi því lakara aðgengi að málsmeðferð en aðrir. Hann sagði réttindagæslumenn oft verða þess áskynja að ekki sé tekið mark á frásögnum fatlaðs fólks af ofbeldi. Fatlað fólk eigi að fá tækifæri til að segja frá og að finna að því sé trúað. Sveigja þurfi þjónustu frekar að þörfum fatlaðs fólks og tryggja aðgengi þess að ákveðnum úrræðum, t.d. Kvennaathvarfinu. 

Að lokum sagði Jón nauðsynlegt að fá fleira fatlað fólk inn í umræðuna: „Besta leiðin til að fjalla um þetta er að gefa fötluðu fólki sviðið og leyfa því að eiga þetta samtal frá sinum bæjardyrum.

 

 



Brýnt að efla stuðning við fatlað fólk

Hrafnhildur S. Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Rannsóknarsetri HÍ í fötlunarfræðum, hefur unnið að ýmsum rannsóknum sem tengjast ofbeldi gegn fötluðu fólki. Hún fór yfir niðurstöður sem sýna að fatlaðar konur eru í áhættuhópi þegar kemur að ofbeldi og hættan á að verða fyrir ofbeldi eykst með umfangi skerðingar. Þannig sé fólk með flóknar stuðningsþarfir í mestum áhættuhópi. 

Rannsóknir sem Hrafnhildur vísaði í sýna að meira en helmingur fatlaðs fólks hefur orðið fyrir ofbeldi. Þau sem eru með geðsjúkdóma eru líklegust til að hafa orðið fyrir ofbeldi, en að auki eru einstaklingar sem eiga erfitt með að ná endum saman líklegri til að verða fyrir ofbeldi en aðrir. Tengsl jaðarsetningar við ofbeldi eru því mikil.

Hrafnhildur sagði rannsóknir sem hún hefur komið að sýna að fötluðum konum finnst þeim oft ekki trúað þegar þær segja frá ofbeldi. Eigi það sérstaklega við um konur með þroskahömlun eða geðsjúkdóma. Frásagnir þeirra séu afskrifaðar og fyrir vikið fái þær ekki viðeigandi stuðning. Telur hún brýnt að efla stuðning við fatlað fólk og að sá stuðningur sé þróaður af fötluðu fólki. Þá sé hópurinn fjölbreyttur og nauðsynlegt sé að aðlaga stuðning að hverjum og einum. 

Það var svo Steinunn Ása sem sleit fundinum: „Fatlað fólk er í miklu meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi en aðrir og það hræðir mig svolítið. En við berjumst saman fyrir því að minnka þetta eins mikið og við getum. Það þarf virkilega að taka á þessum málum og við þurfum öll að standa saman um þetta. Við getum gert miklu betur en við erum að gera.“