Nám og frístundastarf í gegnum rafræna miðla

Covid-19 Skóli og frístund

""

Kennarar og starfsfólk í leikskóla, grunnskóla og frístundastarfi halda úti virku námi og fjölbreyttri starfsemi á netinu.

Skólastarf í borginni byggir vorið 2020 á margvíslegri blöndu af staðnámi, heimanámi og námi í gegnum rafræna miðla. Virkum notendum í Google skólalausnunum hefur fjölgað mikið á undanförnum vikum í reykvískum leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.

Kennarar hafa verið fljótir að aðlaga skólastarfið að nýjum veruleika, breyta skipulagi, og taka upp nýjar leiðir til að miðla upplýsingum til nemenda. Með margvíslegum netlausnum leitast þeir við að styðja nemendur sína við nám, tryggja rútínu í deginum og draga úr því að nemendur einangrist heima við.

Skólar útfæra starfið á mismunandi vegu enda hafa þeir mismikla reynslu af fjarkennslu. Að sögn Bjarndísar Fjólu Jónsdóttur, Hildar Rudolfsdóttur og Þorbjargar Þorsteinsdóttur, verkefnisstjóra upplýsingatækni á skrifstofu skóla- og frístundasviðs, er skólafólk reiðubúið til að miðla reynslu sinni og skella sér í að nýta lausnir sem virka – t.d. fjarfundi í Google Meet með nemendum og með efni sem ratar í verkfærakistuna á vef menntastefnu borgarinnar. „Það er algerlega frábært að sjá hvað við eigum góða kennarar sem henda sér út í að nota nýjar leiðir í kennslu af eldmóði.„

Þorbjörg segir að gerð hafi verið könnun um netstutt nám í síðustu viku. Þá voru þó nokkrir skólar byrjaðir að lána út tölvur til nemenda sem hafa ekki aðgengi að þeim heima og aðrir farnir að huga að því. Um nokkur hundruð tölvur hafi verið lánaðar út til nemenda. Þá séu líka skólar að leggja fyrir svokölluð 1:1 verkefni þar sem nemendur hafa greiðari/tryggðan aðgang að eigin vinnutækjum. Í þeim tilfellum eru nemendur betur í stakk búnir að takast á við nám stutt af netinu.

Leikskólar og frístunastarf

Það eru ekki bara grunnskólarnir sem hafa nýtt netið þessa dagana heldur nýta leikskólarnir það líka og frístundastarfið. Það gera þau m.a. til að efla samkennd og nálægð með streymi t.d. samsöngs- og hreyfistundum í leikskólum eins og sjá má á vina- og hreyfistund hjá Rauðhóli.

Samband barna og ungmenna og starfsfólks í frístundastarfinu hefur með fjarsambandi og samvinnu styrkts með aukinni notkun og aðstoð netsins. Má þar nefna rafrænar félagsmiðstöðvar sem hafa hlotið góðar viðtökur hjá unglingum og foreldrum þeirra. Dæmi um rafræna frístund hjá Tjörninni, Bakka og Árseli.