Vegna fjölda fyrirspurna sem borist hafa undanfarið leggur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur áherslu á að almenn þrif séu fullnægjandi, ekki síst á þeim stöðum sem almenningur leitar til með þjónustu.
Athuga hvort bæta þurfi við þrifum
Stofnanir og aðrir þeir staðir sem Heilbrigðiseftirlitið fer með eftirlit hjá eru hvattir til að fylgja venjubundnum þrifaáætlunum og yfirfara vel hvort bæta þurfi við þrifum á sérstökum stöðum.
Þetta á við um sameiginleg rými eins og fundarherbergi og kaffistofur og fleti sem margir ganga daglega um og snerta, til dæmis hurðarhúna, lyftutakka, lyklaborð, sameiginleg tæki og handrið. Almenningur ætti einnig að huga að sínu nærumhverfi á vinnustöðum og heimilum með tilliti til þrifa og góðrar umgengni.
Hreinlæti í íþróttasölum
Á stöðum þar sem almenningur sækir þjónustu eins og í íþrótta- og líkamsræktarsölum er nauðsynlegt að aðgengi viðskiptavina að handspritti sé gott. Mikilvægt er að íþróttaiðkendur hugi vel að hreinlæti og þeim sé bent á að:
· Nota handspritt í tækjasal
· Koma með sín eigin æfingahandklæði
· Þvo hendur mjög vel eftir æfingu
· Forðast snertingu við augu, nef og munn
Innra eftirlit og matvælaöryggi
Matvælafyrirtæki skulu starfrækja matvælaöryggiskerfi nú sem áður. Framkvæmd slíks kerfis á fullnægjandi hátt tryggir öryggi matvæla og um leið almennings. Nánari upplýsingar um innra eftirlit er að finna á vef Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og meira er að finna um innra eftirlit á vef Matvælastofnunar.
Notkun hanska ekki í staðinn fyrir handþvott
Þá vill Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur undirstrika mikilvægi handþvotta hjá öllum almenningi sem og starfsmönnum fyrirtækja og stofnana og minnir á að notkun hanska kemur ekki í staðinn fyrir góðan handþvott.
Á vef landlæknisembættisins eru almennar leiðbeiningar um sóttvarnir, þrif og umgengni.