Mikill áhugi fyrir nýju hverfisskipulagi

Umhverfi Hverfisskipulag

""

Góð þátttaka var í gönguferð um Neðra-Breiðholt í gærkvöldi þegar tillögur að nýju hverfisskipulagi voru kynntar með vettvangsferð.

Neðar á síðunni má sjá myndband sem tekið var upp í göngunni. 

Nær 70 manns gengu í veðurblíðunni um Neðra Breiðholtið og hlýddu á stutt erindi frá starfsfólki hverfisskipulags og skipulagsráðgjöfum. Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags, leiddi gönguna en auk hans kynnti Anna Björg Sigurðardóttir arkitekt hjá Basalt arkitektum hugmyndir um uppbyggingu við hverfiskjarnann í Arnarbakka. Ólöf Kristjánsdóttir samgönguverkfræðingur hjá Mannviti kynnti helstu áherslur í samgöngumálum, Óskar Örn Gunnarsson landslagsarkitekt hjá Landmótun fór yfir ýmsar grænar áherslur og Richard Briem hjá VA Arkitektum ræddi um með hvaða hætti eldri byggð getur þróast með nýjum skilmálum í hverfisskipulagi.

Við lok göngunnar gafst íbúum færi á að koma á framfæri ábendingum og ávörpuðu Baldur Sveinsson og Anna Sif Jónsdóttir göngufólkið.

Víðtæk kynning  

Starfsmenn hverfisskipulagsins hafa lagt sig fram um að halda uppi góðu samráði og miðla upplýsingum til íbúa og hafa fjölmargir skoðað kynningarsíður Hverfisskipulagsins síðustu vikurnar.

Þá hafa starfsmenn verið með viðveru í hverfinu og verða m.a.  í Mjódd þessa vikuna frá kl. 12 – 17. Þar er hægt að fá nánari upplýsingar og koma með ábendingar. Einnig er hægt að senda ábendingar og fyrirspurnir á netfangið hverfisskipulag@reykjavik.is

Í kvöld verður gengið um Seljahverfi og á fimmtudag um Efra-Breiðholt. Göngurnar hefjast kl. 19.30.

Á mánudag verður haldinn íbúafundur í Gerðubergi. Fjöldi þátttakenda á fundinum er takmarkaður vegna Covid-ráðstafana, en fundum verður streymt á vefnum og hefst hann kl. 19.30. Upptaka af fundinum verður aðgengileg eftir fundinn.

Eftir að farið hefur verið yfir ábendingar og viðbrögð íbúa verður endanleg tillaga að nýju hverfisskipulagi lögð fyrir ráð og borgarstjórn til samþykktar síðar í haust.

Tengt efni