Borgarbúskapur, vetrargarður og sterkari hverfiskjarnar í Breiðholti

Umhverfi Skipulagsmál

""

Tillögur að nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt liggja nú fyrir og eru þær afrakstur umfangsmikils samráðs við íbúa. Vinnutillögurnar eru kynntar á sérstöku vefsvæði þar sem upplýsingar eru settar fram með myndrænum hætti auk þess sem hægt er að velja fjölmörg tungumál.

Hverfisskipulag Reykjavíkur á að gera hverfin sjálfbærari, vistvænni og undirbúa þau fyrir áskoranir í framtíðinni. Stefnt er að því að hverfisskipulag fyrir Neðra Breiðholt, Efra Breiðholt og Seljahverfi verði kláruð í haust.

Hverfiskjarnar styrktir og endurnýjaðir

Mikilvægur þáttur í hverfisskipulagi er að styrkja núverandi hverfiskjarna til að skapa aukin tækifæri fyrir blómlega verslun og fjölbreytta þjónustu í göngufæri fyrir íbúa.

Í Neðra Breiðholti verða meðal annars gerða miklar breytingar á kjarnanum við Arnarbakka en í hverfisskipulagi er uppbygging hans sett í forgang. Hverfiskjarninn verður styrktur með því að fjarlægja gömlu húsin og reisa nýjar byggingar en hugmyndir eru um að vera þar með verslanir og þjónustu á jarðhæð í nýjum byggingum og stúdentaíbúðir á efri hæðum.

Kjarnarnir í Efra Breiðholti verða líka efldir verulega. Þar á meðal verður farið í umfangsmikla endurnýjun við Eddufell og Völvufell. Eldri byggingar verða fjarlægðar að hluta og nýtt húsnæði reist sem hýsa mun bæði sameinaðan leikskóla hverfisins, stúdentagarða og raðhús, ásamt sérhæðum. Áfram verður verslun og þjónusta í Fellagörðum og heimildir fyrir íbúðum á efri hæðum verslana.

Hugmyndir eru að styrkja hverfiskjarnann við Rangársel í Seljahverfi með nýjum íbúðum og margvíslegu atvinnuhúsnæði.

Matjurtagarðar og gróðurhús fyrir almenning

Skilmálar verða settir í hverfisskipulagið um borgarbúskap á lóðum og borgarlandi. Matjurtagarðar og gróðurhús verða heimilaðir, annars vegar á opnu svæði sunnan við Stekkjarbakka og norðan við sérbýlishúsabyggðina í Stekkjum og hins vegar á opnu svæði við Jaðarsel, austan við leikskólann Jöklaborg.

Þetta mun styðja við útiveru og neyslu á hollu grænmeti og stuðla jafnframt að betri nýtingu á verðmætu landi.

Vetrargarður allan ársins hring

Til að stuðla að fjölbreyttri afþreyingu og auka útivist og hreyfingu allan ársins hring í Breiðholti eru kynntar hugmyndir um vetrargarð efst í Seljahverfinu, sem yrði opinn allan ársins hring.
Í vetrargarðinum yrðu fjölbreyttar brekkur og ævintýrabrautir formaðar sérstaklega á svæðinu. Vetrargarðurinn er hugsaður fyrir alla; leikskóla, grunnskóla, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, skíðafélög, fyrirtæki og stofnanir, félagasamtök og almenning. Svæðið yrði opið fyrir alla, bæði einstaklinga og fjölskyldur og þar yrði hægt að standa fyrir allskyns mótum og viðburðum.

Möguleg fjölgun íbúða hátt á þriðja þúsund

Íbúum í Breiðholti hefur fækkað í um 20 þúsund íbúa úr 25 þúsund þegar mest var. Hverfisskipulag getur aukið framboð á litlum og meðalstórum íbúðum í grónum hverfum, sérstaklega í hverfum með mörgum einbýlis- og raðhúsum. Vinnutillögurnar gera ráð fyrir því að íbúðum geti fjölgað um hátt á þriðja þúsund í hverfunum. Þessi fjölgun getur orðið með þéttingu byggðar á þróunarsvæðum, hækkun lyftulausra fjölbýlishúsa og heimildum eigenda sérbýlishúsa til að innrétta aukaíbúðir þar sem aðstæður leyfa.  

Þá eru líkur til þess að íbúðafjölgunin í Breiðholtinu geti orðið meiri þar sem möguleg fjölgun íbúða á stærri þróunarsvæðum er ekki talin með hér, til dæmis í Norður Mjódd

Með tilkomu hverfisskipulags verður einnig mun einfaldara fyrir húseigendur að gera breytingar á fasteignum sínum, til dæmis að byggja kvisti, svalir eða viðbyggingar.

Hvers vegna hverfisskipulag?

Margar eldri deiliskipulagsáætlana í Reykjavík sem hafa orðið til um leið og borgin hefur byggst upp eru orðnar úreltar og þarfnast endurskoðunar. Oft er óskað eftir litlum viðbyggingum, garðskúrum, aukaíbúðum til útleigu, leyfum fyrir atvinnustarfsemi í heimahúsum eða kvistum og svölum. Ef heimildir skortir í gildandi deiliskipulagi og vilji er til að leyfa slíkt, þarf að gera deiliskipulagsbreytingar sem kosta fjármuni og tíma. Hverfisskipulag ýtir stórum hluta af slíkum hindrunum úr vegi. Þannig munu grenndarkynningar og deiliskipulagsbreytingar hverfa að mestu.

 

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010–2030 eru lagðar línur um framtíðarþróun borgarinnar og hverfanna. Þar er sett fram stefna um að gróin hverfi eigi að verða sem mest sjálfbær og vistvæn. Markmiðið er að lagfæra og fegra borgarumhverfið og hvetja til heilsueflandi og jákvæðra athafna. Jafnframt er lögð áhersla á að færa mótun borgarumhverfisins nær íbúum með virku samráði. Í þessari vinnu gegnir hverfisskipulagið veigamiklu hlutverki.

Hverfisskipulag felst því í að innleiða stefnu aðalskipulagsins, endurskoða og sameina eldri deiliskipulagsáætlanir og setja nýja skilmála sem taka mið af algengum óskum íbúa. Veigamikill þáttur hverfisskipulagsins er ný heimasíða. Hún mun einfalda aðgang að upplýsingum og flýta afgreiðslu erinda og þar með bæta þjónustuna við borgarbúa.

Með hverfisskipulagið í höndunum geta því bæði íbúar og kjörnir fulltrúar séð fyrir hvað vantar í einstök hverfi og í sameiningu tekið upplýstar ákvarðanir um forgangsröðun framkvæmda.

Fyrsta hverfisskipulagið var samþykkt í fyrra, fyrir Ártúnsholt, Árbæjarhverfi og Seláshverfi. Næst í röðinni á eftir Breiðholti eru Hlíðar og fjögur hverfi í Háaleiti – Bústöðum. Stefnt er að því að öll hverfi borgarinnar hafi fengið hverfisskipulag 2024.

Frekari upplýsingar