Lært á netinu að kenna á netinu

Covid-19 Skóli og frístund

""

Mikill áhugi er hjá kennurum að læra hvernig nýta megi upplýsingatæknina sem best til að styðja við nemendur á tímum Covid19. 

Síðustu vikur hefur starfsfólk Nýsköpunarmiðju menntamála (NýMið hjá skóla- og frístundasviði) tekið eftir miklum áhuga og þörf kennara fyrir upplýsingatækni sem styður við samskipti og nám nemenda. Samhliða hefur notkun á G Suite skólalausnum aukist til muna en mikil vinna hefur verið lögð í innleiðingu kerfisins. Lausnin sem hefur verið áhættumetin með tilliti til persónuverndarsjónarmiða telst ein sú öruggasta sem skóla- og frístundasvið getur boðið nemendum upp á í dag.

Til að koma til móts við skóla og starfsstaði sem eru komnir milslangt á veg í að nota þessa lausn hafa kennsluráðgjafar NýMið boðið kennurum og öðrum upp á námskeið. Vegna samkomubanns var gripið til þess ráðs að nota fjarfundabúnað og riðu kennarar og starfsfólk við Ölduselsskóla á vaðið. Þeir hafa síðustu þrjá daga verið á stífum námskeiðum í upplýsingatækni á neitnu. 

Auk beinnar kennslu er mikilvægt að nýta möguleika tækninnar til sjálfsnáms enda forþekking og þarfir starfsmanna ólíkar. Í mars var settur í loftið vefurinn Nám stutt af neti þar sem finna má gagnalegar upplýsingar og kennslumyndbönd um ýmis upplýsingaverkfæri sem mælt er með. Auk þess er áhersla lögð á fræðslu um persónuvernd og þá þjónustu sem NýMið býður upp á. 

Stefnt er á að bjóða fleiri starfsstöðum upp á vefnámskeið um G Suite og fleiri tæknilausnir eftir því sem þörf krefur. Áhugsamir geta haft samband með tölvupósti á nymid@reykjavik.is.