Jólaskógurinn opnar í Ráðhúsi Reykjavíkur

Skóli og frístund Menning og listir

""

Jólaskógurinn opnaði í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í morgun.

Ráðhúsið hefur nú verið opnað á ný með fjöldatakmörkunum í samræmi við sóttvarnir. Við opnun jólaskógarins í morgun var sú regla viðhöfð og auk grímuskyldu og talið verður inn í húsið. Fjarlægðar- og fjöldatakmörk eiga hins vegar ekki við um leikskólabörn.

Leikskólabörn af Tjarnarborg komu í jólaskóginn og Grýla og Leppalúði mættu á svæðið og sögðu börnunum sögur af jólasveinunum, en Stekkjastaur er væntanlegur til byggða í nótt. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri bauð gestina velkomna í hús og var öllum boðið upp á heitt kakó og smákökur. Sungin voru jólalög og dansað í kringum jólatréð í miðjum skóginum.

Þetta er í níunda sinn sem Tjarnarsalnum er breytt í jólaskóg og að þessu sinni er hönnun og framkvæmd verkefnisins í höndum Kristínar Maríu Sigþórsdóttur, upplifunarhönnuðar. Við hönnunina í ár var tekið tillit til hinna sérstöku aðstæðna í samfélaginu og upprunalegri hugmynd breytt á þann veg að fækka snertiflötum.

„Við lögðum upp með að gera þetta mjög sjónrænt og ákváðum hreinlega að klæða jólatréð í jólakjól í miðjum jólaskóginum. Varúðarborðar virðast vera orðnir hluti af okkar daglega lífi og eitthvað sem við sjáum orðið á flestum stöðum þar sem verið er að takmarka aðgengi.  En þessar skásettu hvítu og rauðu rendur minna samt óneitanlega á sykurstaf eða sprota eða "Candy Cane" sem er klassískt  jólatákn í hinum vestræna heimi. Hugmyndin um að nota varúðarborðana fannst mér glettin leið til að snúa við hlutverki þeirra og láta þá freista á hátíðlegan hátt frekar en hindra eins og þeir eru oftast notaðir í“ segir Kristín María.

Hægt er að skoða jólaskóginn á opnunartíma Ráðhússins sem er 08:00 – 18:00 virka daga og um helgar 10:00  – 18:00.