Borgarráð hefur samþykkt deiliskipulagsbreytingu á Frakkastígsreit en í því felst að heimildir eldra skipulags til að rífa gömul hús við Laugaveg eru felldar úr gildi. Húsið við Laugaveg 33 og viðbygging við hana verða gerð upp. Samkvæmt tillögunni gildir hið sama um Laugaveg 33b. Húsin við Laugaveg 35 verða einnig gerð upp og hækkuð um eina hæð. Endurgerð húsanna verður unnin í samráði við Minjastofnun.
Aukið byggingarmagn sem eldra deiliskipulag heimilaði verður fært á Vatnsstíg og baklóðir. Tillagan gerir ráð fyrir að húsin við Vatnsstíg 4, sem skemmdist illa af eldi fyrir nokkrum árum, og Laugaveg 33a, verði rifin að fengnu leyfi Minjastofnunar. Gert er ráð fyrir að á reitnum verði almennar íbúðir og gististarfsemi en verslanir og veitingastaðir á jarðhæðum.
Húsið við Laugaveg 37 helst óbreytt en gert er ráð fyrir að gamalt timburhús af baklóðinni verði flutt og nýlegt steinhús á baklóð rifið. Þriggja hæða hús með kjallara verður reist í staðinn.
Deiliskipulagið heimilar byggingu bílageymslu undir þeim hluta lóðanna, þar sem ekki standa friðuð hús.