Gleðileg umhverfisvæn sorphirðujól

Umhverfi

""

Jól og áramót eru hefðbundinn álagstími hjá sorphirðu Reykjavíkurborgar. Starfsfólk sorphirðunnar leggst á eitt til að ná að þjónusta öll hverfi borgarinnar og verður bætt við hirðudögum um helgar eins og þörf krefur. Búast má við að hirða geti færst á milli daga af þeim sökum. Íbúar geta lagt sitt af mörkum til að flýta fyrir hirðunni þannig hægt verði að þjónusta alla. Umhverfisvænn jólaundirbúningur hefur mikið að segja og dregur úr úrgangi um hátíðirnar.

Hvað þarf að hafa í huga?

  • Huga þarf að flokkun úrgangs og nýta plássið í tunnunum vel og að þær yfirfyllist ekki.
  • Í fjölbýli þarf að huga að því að skipta um tunnur þar sem eru rennur til þær stíflist ekki og passa að úrgangur fari ekki fram á gólf.
  • Ekki verður hægt að taka neitt umframsorp vegna sóttvarna.
  • Ef útlit er fyrir snjókomu þarf að huga að aðgengi og moka frá tunnum og geymslum til að tryggja að gönguleiðir séu greiðar og hálkuvarðar.
  • Huga þarf að fyrirstöðum sem koma í veg fyrir að hægt sé að losa tunnur, til dæmis geta illa lagðir bílar hindrað aðgang sorphirðufólks að ílátum.

Minnt er á þjónustu 57 grenndarstöðva í borginni sem eru alltaf opnar og þar er hægt að skila flokkuðu plasti, pappír og gleri. Ef þörf krefur er einnig hægt að fara með alla flokka úrgangs á endurvinnslustöðvar Sorpu.

Nýtt rafrænt sorphirðudagatal

Upplýsingar um hirðudaga, tilkynningar frá sorphirðunni og upplýsingar um næstu grenndarstöð og stystu leið þangað má finna á rafrænu sorphirðudagatali á vef Reykjavíkurborgar.

Hvað er hægt að gera til að halda umhverfisvænni jól?

Það eru fjölmargar leiðir færar til þess að draga úr úrgangi í undirbúningi jólanna og yfir hátíðirnar sjálfar. Mikilvægast er að reyna að endurnýta sem mest til þess að minnka þá sóun að kaupa einnota hluti sem eru aðeins notaðir í örfáar klukkustundir.

Ein hugmynd er að geyma allan jólapappír, pakkabönd og borða utan af pökkum sem berast inn á heimilið og nýta í innpökkun næstu jól. Pakkamiðana er einfalt að föndra úr gömlum jólakortum, dagatölum eða konfektkassaloki og jafnvel er hægt að skrifa jólakveðjuna beint á pappírinn sjálfan. Mikið af jólaskrauti fæst á nytjamörkuðum sem er alls ekkert síðra en annað skraut.

Þetta eru bara nokkrar tillögur en engin takmörk eru á því hvað er hægt að láta sér detta í hug; dagblöð geta orðið að gjafapappír og ónýtar bækur fengið nýtt hlutverk sem pappajólaskraut.

Minnkum sóun með því að kaupa notað

Góður valkostur til að draga úr umhverfisáhrifum fataiðnaðarins er að leita að fallegum spariklæðnaði í verslunum sem selja notaðan fatnað. Margar nýjar verslanir með notuð föt hafa sprottið upp á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri og líka er hægt að nota netið og söluhópa á Facebook í fataleitinni. Minnkum sóun með því að kaupa notað frekar en nýtt.

Gagnlegir tenglar

Ýmislegt um plastlausan jólaundirbúning.

Almennur fróðleikur um hvað fyrirtæki og einstaklingar geta gert til að hafa umhverfisvænni jól.

Á Saman gegn sóun eru hagnýt ráð fyrir jólainnkaupin.