Fjölbreytnin í matarmenningu landans mun án efa aukast næsta sumar. Ástæðan er samstarf Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem halda nú námskeið til að styðja við innflytjendur sem vilja hefja rekstur tengdan matargerð.
Verkefnið heitir „Global Street Food Iceland“ og taka um 24 hópar þátt í verkefninu. Þátttakendur hafa allir hugmyndir að framandi freistingum sem boðið verður upp á næsta sumar. Þátttakendur eiga sér þann draum að stofna til reksturs sem byggir á þeirra eigin matarhefðum og ná þannig að standa á eigin fótum. Innflytjendur frá 25 þjóðlöndum og úr öllum heimsálfum, einstaklingar, hjón og heilu fjölskyldurnar taka þátt í verkefninu.
Níu hópar sátu í vikunni í Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fóru ásamt leiðbeinendum yfir hugmyndir sínar að matseðli og hvernig best væri að standa að rekstri utan um matvælasölu. Að mörgu er að hyggja þegar selja á matvæli og í fræðslu þar um gegna fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar lykilhlutverki.
Eitt er víst að það verður hægt að velja um framandi freistingar af ýmsu tagi þegar borgarbúar og aðrir gestir vilja gæða sér á götumat næsta sumar.