Hátt í sex hundruð grunnskólakennnarar sóttu árlega Öskudagsráðstefnu 26. febrúar, en hún var haldin í Silfurbergi í Hörpu undir yfirskriftinni Hvað getum við gert?
Loftslagsváin, sjálfbærni, útinám og leiðir til lausnar við loftslagskvíða voru í brennidepli á Öskudagsráðstefnunni að þessu sinni. Aðalfyrirlesari var Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við HÍ, en hann er jafnframt einn helsti sérfræðingur landsins í loftslagsmálum. Guðni fjallaði í erindi sínu um rannsóknir og horfur í loftslagsmálum og dró upp lausnir sem krefðust róttækra hugarfarsbreytinga. Þá bauð hann grunnskólakennurum í borginni til samstarfs um fræðslu og vitundarvakningu strax á næsta hausti því engan tíma má missa að hans mati.
Guðrún María Ólafsdóttir, verkefnastjóri, og Hildur Sif Hreinsdóttir, sjálfbærnifræðingur í Miðstöð úrivistar og útináms í Gufunesbæ, kynntu margvísleg fræðslutilboð og Sesselja Guðmundsdóttir, list- og verkgreinakennari í Ártúnsskóla, sagði frá alþjóðlega sjálfbærniverkefninu Eco-Road sem fjórir grunnskólar áttu aðild að. Þá fjallaði Hulda Jónsdóttir Tölgyes, sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni, um aðferðir til að ræða og vinna með loftslagskvíða meðal barna og ungmenna.
Gunnar Björn Melsted kennari í Brúarskóla setti ráðstefnuna og Ari Eldjárn flutti gamanmál. Þá söng starfsmannakór Laugarnesskóla fyrir og með ráðstefnugestum.
Ráðstefnustjóri var Soffía Vagnsdóttir skrifstofustjóri á grunnskólaskrifstofu skóla- og frístundasviðs.
Á öskudagsráðstefnunni voru afhent Minningarverðlaun Arthurs Morthens sem komu í hlut Hólabrekkuskóla og hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs.