Átta staðir fá streymisstyrk frá Reykjavíkurborg 

Menning og listir Mannlíf

""

Menningar- íþrótta og tómstundaráð samþykkti á dögunum að veita sérstaka viðspyrnustyrki til tónleikastaða í Reykjavík til að standa fyrir streymistónleikum í desember og janúar.

Í pottinum voru 3.550.000 kr. sem voru eyrnamerktar úrbótasjóði tónleikastaða en vegna áhrifa heimsfaraldurs á tónleikastaði varð til afgangur í sjóðnum sem ákveðið var að nýta á þennan hátt.  Kallað var eftir umsóknum og var umsóknarfrestur til miðnættis mánudaginn 7. desember. Sérstakur faghópur, skipaður einum fulltrúa frá Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði og tveimur fulltrúum skipuðum af STEF, FÍH og FHF, fór yfir umsóknirnar og lagði til að átta rótgrónir tónleikastaðir í Reykjavík fengju styrki til að standa fyrir streymistónleikum í desember og janúar. 

Staðirnir sem hljóta styrki eru:

  • Gaukurinn - 660.000 kr.
  • Hard Rock Café - 550.000 kr. 
  • Dillon - 550.000 kr.
  • Mengi - 470.000 kr.
  • Gamla bíó - 420.000 kr. 
  • Hannesarholt - 400.000 kr.
  • KEX Hostel - 300.000 kr. 
  • R6013 - 200.000 kr. 

Það er Tónlistarborgin Reykjavík sem heldur utan um Úrbótasjóð tónleikastaða í Reykjavík en verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar og menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur voru sammála um að mikilvægt væri að koma afgangsfé í sjóðnum út til tónleikastaðanna á einkar erfiðum tímum. Þannig væri í raun hægt að slá þrjár flugur í einu höggi - styðja við staðina, skapa verkefni fyrir íslenskt tónlistarfólk og skemmta fólki um leið. Tónlistarborgin Reykjavík leggur jafnframt til mótframlag til að standa straum af kostnaði við hönnun, kynningu- og markaðsmál en einnig fá þeir staðir sem þess óska aðstoð frá tækniteymi sem sér um kvikmyndatöku, hljóð og lýsingu. 

Tónlistarborgin á Facebook og Instagram

www.tonlistarborgin.is / www.reykjavikmusiccity.is