12,40 metra hátt Oslóartré fellt í Heiðmörk

Menning og listir Mannlíf

""

Í fallegum lundi í Heiðmörk var jólatré ársins fellt en tréð er 12,40 metra hátt sitkagrenitré sem er 60 ára gamalt.

Það var jólalegt um að litast í Heiðmörk í dag þegar borgarstjóri felldi Oslóartréð sem mun prýða Austurvöll yfir hátíðirnar.

Eftir að hafa fengið viðeigandi útbúnað til þess að fella tréð lá leið borgarstjóra upp á Borgarstjóraplan þar sem gengið var stuttan spöl að staðnum þar sem trjáfellingin fór fram.

Í fallegum lundi í Heiðmörk var jólatré ársins fellt en tréð er 12,40 metra hátt sitkagrenitré sem er 60 ára gamalt. Gaman að segja frá því að trénu hefur sennilega verið plantað á 10 ára afmæli Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem á 70 ára afmæli um þessar mundir.

Oslóarborg hefur í áratugi gefið Reykvíkingum jólatré sem tákn um vináttu borganna og sameiginlegar hefðir og jólagleði. Nú er jólatréið fellt í Heiðmörk en það hefur ekki breytt neinu um vináttuna, því í stað jólatrés gefa borgaryfirvöld í Osló grunnskólum í Reykjavík bækur.

Oslóartréð verður sett upp á Austurvelli og verður mikið lagt í skreytingar að þessu sinni til þess að gleðja gesti og gangandi. Jólaljósin verða svo tendruð þann 29. nóvember næstkomandi. Ekki er ljóst á þessari stundu með hvaða hætti sú athöfn fer fram vegna aðstæðna í samfélaginu.

Í Heiðmörkinni var einnig fellt tré sem verður fært Færeyingum að gjöf og kemur til með að prýða Tinghúsvöllinn  í miðborg Þórshafnar. Þar verður kveikt á jólalýsingunni þann 28. nóvember nk. Eimskip mun sjá um flutning á trénu til Færeyja.